Spítalaskipið St. Paul var glæsileg smíð, þrímastra seglskip með litla hjálparvél og 20 manna áhöfn. Það veitti frönskum sjómönnum hvers konar hjálp og læknisaðstoð á fiskimiðunum við Ísland. Skipið var frá Le Havre í Frakklandi og var þetta þriðja vertíðin sem það sigldi á Íslandsmið. Áhöfnin hafði aðstoðað fjölda sjómanna árin áður og var mikil ánægja sjómanna og fjölskyldna þeirra með þessa læknisþjónustu sem sjálfboðaliðasamtök í Frakklandi höfðu barist fyrir.
Á páskum 1899 lenti St. Paul í óveðri úti fyrir Meðallandi og strandaði rétt við ósa Kúðafljótsins. Mennirnir komust allir heilir í land og sást til skipsins frá bæjum í Meðallandi. Meðallendingar brugðust skjótt við og sóttu mennina og komu þeim í húsaskjól. Fáum dögum síðar fóru skipverjar ríðandi suður til Reykjavíkur yfir jökulvötn og sanda.
Það var sorglegt fyrir skipstjórann og aðra að horfa á þetta glæsilega skip pikkfast í sandinum. Ekki voru nein ráð til að koma því á flot aftur og varð að saga gat á skipsskrokkinn til að ná sem mestu af verðmætum úr skipinu. Sögðu bændur að aldrei hefðu þeir séð annað eins. Skipið var logagyllt stafna á milli og aldrei höfðu slíkir hlaðar af hvers konar góssi sést á strandstað í Meðallandi. Það var kapella um borð og eru nokkrir munir úr henni í kirkjunum í Langholti í Meðallandi og Þykkvabæjarklaustri í Álftaveri. Sýslumaður auglýsti uppboð í fjörunni og komu rúmlega 300 manns úr Skaftafells- og Rangárvallasýslu. Seldist flest af því sem var í boði en skipsskrokkurinn fór á mjög lágu verði meðal annars vegna þess að hann var svo nærri ósnum að hann gat horfið áður en næðist að saga hann niður og koma efninu til byggða.
Spítalaskipið bætti mjög aðstæður franskra sjómanna við Ísland sem höfðu fagnað því að geta leitað lækninga á langri vertíð. Strand þess var því mikið áfall. Fjöldi sjómanna hafði þegið þjónustu um borð í skipinu þegar það fórst, en þetta haust er talið að hafi verið 4000 franskir sjómenn á veiðum við Ísland. Önnur spítalaskip voru send á Íslandsmið en seinna byggðu Frakkar spítala fyrir sjómennina á Fáskrúðsfirði og í Reykjavík og eftir því sem starfsemi þeirra efldist var minni þörf fyrir spítalaskip.
Í spítalanum á Fáskrúðsfirði, sem nú er hótel og veitingastaður, er vegleg sýning þar sem sjá má margt um sögu frönsku sjómannanna við Ísland.Ljósmyndin af skipinu er tekin á safninu á Fáskrúðsfirði. (Ljósm. LM)