Það var mikið menningarheimili í Holti og mikið til af bókum þegar þar fæddist strákur 1907 sem fékk nafnið Jón og var Björnsson og varð frægur rithöfundur á Norðurlöndum. Fyrstu sögur Jóns birtust áður en hann hélt utan til náms í Askov-lýðháskólanum 1930 en þangað fór hann til að læra dönsku og lesa bókmenntir með það fyrir augum að verða rithöfundur á danska tungu. Hann taldi fráleitt að það borgaði sig að gerast rithöfundur á Íslandi á kreppuárunum.
Jóni gekk mjög vel í Danmörku, skrifaði mikið fyrir blöð og tímarit og fyrsta skáldsaga hans Jordens magt kom út 1942 og aflaði höfundi mikilla vinsælda. Jordens Magt var þýdd á íslensku sex árum eftir að hún kom út í Danmörku og fékk titilinn Máttur jarðar. Jón Björnsson flutti heim í lok seinni heimstyrjaldarinnar og skrifaði þá á íslensku og þýddi bækurnar yfir á dönsku en þær voru einnig þýddar á mörg önnur tungumál.
Jón Björnsson skrifaði alls níu skáldsögur. Flestar eru byggðar á atburðum úr sögu íslensku þjóðarinnar og fjalla margar um dómsmál og yfirgang valdsmanna, íslenskra og danskra, gegn almenningi í landinu. Nefna má nokkrar þær helstu: Jón Gerreksson segir frá dönskum manni sem var biskup í Skálholti á 15. öld. Skáldsagan Valtýr á gænni treyju og samnefnt leikrit segir af dómsmáli á ofanverðri 18. öld. Skáldsagan Jómfrú Þórdís er byggð á frægu sakamáli í Skagafirði. Þórdísi var drekkt í Drekkingarhyl á Þingvöllum 1618 og lýsir sagan vel ágreiningi Dana og Íslendinga á þeim tíma sem Stóri-dómur var við lýði á Íslandi. Bergljót gerist á galdraöldinni og segir frá lífinu í Skaftafellssýslu löngu fyrir Skaftárelda. Í sögunni er sagt frá Bergljótu, stúlku sem ákærð var fyrir galdra en slapp frá yfirvaldinu og faldi sig um tíma í Skaftárgljúfri sem var nærri Skaftárdal. Talið er að Skaftárgljúfur hafi verið mjög stórt en það fylltist upp af hrauni í Skaftáreldum.
Jón Björnsson starfaði í nokkur ár sem ritstjóri Heima er bezt, var bókavörður á Borgarbókasafninu og gagnrýnandi á Morgunblaðinu. Hann lést árið 1994.
Viltu lesa meira um Jón Björnsson og bækurnar sem hann skrifaði? Smelltu þá á Eldsveitir.is
Texti Lilja Magnúsdóttir. Lesari er Gunnar Jónsson. (Ljósm. LM)