Katla minnti hressilega á sig sumarið 2011 þegar hlaup kom úr jöklinum og tók af brúna yfir Múlakvísl og rauf þar með hringveginn í byrjun júlí einmitt þegar ferðamenn eru flestir á Íslandi. Menn ruku til og smíðuðu nýja brú á einni viku. Þetta sýnir okkur að Katla gamla er ekki sofnuð þó ekki hafi hún gosið stóru gosi frá því 1918. Í því gosi fórst enginn en litlu mátti muna því menn úr Álftaveri höfðu verið á afrétti og voru að koma með safnið niður Mýrdalssand þegar gosið hófst.
Bændurnir sem voru að smala voru komnir nokkuð nærri Álftaverinu þegar þeir heyrðu dynki og drunur og svo sáu þeir tilsýndar að menn riðu allir burtu frá réttinni og stefndu til Skálmabæjarhrauna sem eru hærri en landið í kring. Stuttu síðar sáu smalarnir jökulhlaupið og þá var ekkert um annað að gera en að skilja féð eftir og ríða sem hraðast undan hlaupinu sem nálgaðist óðfluga.
Breyttu þeir stefnu og héldu í áttina til Skálmabæjarhrauna. Hleyptu þeir hestunum á fleygiferð þvert á skurði og læki. Mátti nú varla á milli sjá hvor hefði betur, hestarnir á harðastökki eða jökulhlaupið. Hestarnir náðu hraunbrúninni rétt áður en hlaupið skall á henni, en svo var það nærri komið, að það féll yfir slóð þeirra 40-50 metra frá hraunbrúninni. Mestur hluti þess fjár sem búið var að smala varð undir hlaupinu. Þessu næst héldu smalarnir til mannanna sem safnast höfðu upp á hraunið. Voru þar komnir allir afréttarmenn og menn sem voru á leið í réttina. Urðu menn harla fegnir er engan vantaði.
Mennirnir riðu svo heim að bænum Skálmarbæjarhrauni og báru allt úr bænum upp á hraunbrúnina og gistu svo með heimilisfólkinu í fjárhúsi sem var lengra uppi í hrauninu. Um nóttina varð engum svefnsamt. Það var ösku- og vikurfall og kolamyrkur sem lýstist upp öðru hvoru af leiftrum frá eldingum, í fjarska heyrðust þrumur og dynkir frá gosinu, og vatnsniður og skruðningar frá jökulhlaupinu. Um morguninn þegar fólkið vaknaði sá það að flóðið hafði farið alveg heim á bæjarhlaðið og á stéttinni við húsið var mittishá jakahrönn. Fjær voru hrannir miklar og hrikalegar jökulborgir. Bærinn Skálmabæjarhraun lagðist í eyði eftir gosið en aðrir bæir í Álftaveri skemmdust lítið.
Það má merkilegt heita að enginn maður skyldi farast í þessum hamförum sem stóðu í 24 daga.
Meiri upplýsingar um Kötlugosið og ljósmyndir má sjá á vefnum Katla100. is sem fjallar um Kötlugosið 1918 og önnur eldgos í Skaftárhreppi.
Texti Lilja Magnúsdóttir. Lesari Gunnar Jónsson