Eftirfarandi mannvirkjagerð er undanþegin byggingarheimild og -leyfi en skal tilkynnt leyfisveitanda. Hún skal vera í samræmi við deiliskipulag og önnur ákvæði reglugerðar þessarar eins og við á hverju sinni.
- Nýklæðning þegar byggðra mannvirkja.
- Tjaldhýsi sem nota skal í atvinnustarfsemi.
- Stöðuhýsi sem skulu standa lengur en 4 mánuði.
- Heitir og kaldir pottar eða laugar í görðum við íbúðarhús og frístundahús.
- Lítilsháttar breyting á burðarvirki sem nemur minna en 5% af hjúpfleti burðarhluta, þó aldrei meira en 5 m2.
- Lítilsháttar breyting á brunahólfun sem nemur minna en 5% af hjúpfleti brunahólfandi hluta, þó aldrei meira en 5 m2.
- Breytingar á lögnum.
- Rannsóknarmastur ætlað til mælinga, sett upp tímabundið og ekki lengur en til tveggja ára.
Byggingarfulltrúi staðfestir móttöku tilkynningar, að mannvirkjagerð falli undir 1. mgr. og að hún samræmist skipulagi. Með tilkynningum skulu fylgja aðaluppdrættir og greinargerð löggilds hönnuðar. Sé tilkynnt um breytingar á þegar byggðu mannvirki, þar sem aðaluppdrættir eru til staðar, þarf ekki að skila aðaluppdráttum í heild heldur aðeins þeim hluta aðaluppdrátta sem sýna breytingarnar.
Ekki er heimilt að hefja mannvirkjagerð án staðfestingar leyfisveitanda. Hafi byggingarfulltrúi þó ekki gert athugasemdir við tilkynnta framkvæmd innan þriggja vikna frá móttöku tilkynningar telst hún staðfest og er þá heimilt að hefja framkvæmdir.
Hvar sæki ég um?