Nú á þessum fordæmalausu tímum ákvað starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs ásamt Skógræktinni að bregða á leik og hvetja börn og fullorðna til að nýta sér skóginn á Kirkjubæjarklaustri til útivistar og skemmtunar.
Skógurinn á Klaustri er svokallaður þjóðskógur en fjölskyldan á Klaustri hóf þar skógrækt upp úr 1940. Skógurinn er eign Klausturbænda, en hefur verið í umsjá Skógræktarinnar í rúma hálfa öld. Vatnajökulsþjóðgarður og Skógræktin ásamt nemendum Kirkjubæjarskóla og Heilsuleikskólans Kærabæjar eru nú að búa til ævintýraskóg í skóginum og fyrir jólin verður þar jólaþema, auk þess sem Aurora og íbúar Klausturhóla aðstoða við verkið. Hugmyndin er að hægt sé að fara um skóginn bæði í björtu og i rökkri með vasaljós (vasaljósaganga). Á leiðinni verður ýmislegt á veginum sem örvar ímyndunaraflið, bæði eitthvað jólalegt og ævintýralegt.
Ævintýraskógurinn nær frá Systrafossi og í gegnum dimmasta hluta skógarins (fyrri hluta grænu leiðarinnar). Verða nemendur skólanna búnir að skreyta skóginn í lok næstu viku en nú þegar eru nokkrar verur komnar á kreik.
Helsta markmið verkefnisins er að búa til stað þar sem fólk getur upplifað jólastemmingu án þess að hafa áhyggjur af sóttvörnum, leikið sér í náttúrunni, kynnst skóginum og örvað hugmyndaflugið.
Vonandi munu sem flestir geta nýtt sér þetta uppátæki.