Menningarmálanefnd Skaftárhrepps þakkar öllum þeim sem tóku þátt í að búa til listaverk á Uppskeru- og þakkarhátíðinni í Skaftárhreppi árið 2020. Formaður nefndarinnar, Gunnar Erlendsson, fór um sveitir í gær og afhenti fólki verðlaunin.
Öllum þeim sem gáfu verðlaun kunnum við bestu þakkir en það voru: Skúli Jónsson, sendi smíðisgrip, Seglbúðir gáfu grafið ærkjöt, Klausturbleikja gaf bleikju, Randombúðin kerti og jólaskraut, Systrakaffi gjafabréf, Sigrún á Prestsbakka gaf garn í sjal, Café Hamrafoss gjafabréf, Sundlaugin kort í sund, Ómar Smári gaf Hjólabók, Snorri Baldursson gaf Ljósmyndabók, Vatnajökulsþjóðgarður gaf gistinætur í skálum, göngukort, húfur og fl. Lindarfiskur gjafabréf, Icewear vettlinga, Unicars gjafabréf, Fossís gjafabréf, Sandhóll gaf haframjöl og repjuolíu.
Siggi og Kidda á Þykkvabæjarklaustri voru kát með 1. verðlaunin sem var m.a. þetta forláta borð sem Skúli Jónsson smíðaði og gaf. Svo var í pakkanum grafið ærkjöt frá Seglbúðum sem er mikið lostæti, haframjöl úr Meðallandinu, bækur og fleira. Til hamingu!
Skúli í Þykkvabæ var í 2. sæti. Það kom engum á óvart þvílíkur listasmiður sem hann er. Það var ýmislegt í kassanum.
Vilhjálmur Logi sendi tvö listaverk í keppnina og fékk 3. verðlaun. Villi fékk nokkur gjafabréf sem eiga eftir að koma sér vel.
Dómnefndin fjölgaði verðlaunahöfum því ekki var auðvelt að velja. Hjúkrunarheimilið Klausturhólar fékk líka 3. verðlaun fyrir sokkálfana. Hér hefur formaðurinn sloppið inn í anddyrið með verðlaunin en starfsmaðurinn er vel varinn!