Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfisráðherra, og Sandra Brá Jóhannsdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps, skrifuðu í vikunni undir verksamning um tilraunaverkefni um raungjaldtöku fyrir meðhöndlun úrgangs á grenndarstöðvum.
Verkefnið felst í því að prófaðar verða snjalllausnir á grenndarstöðvum innan Skaftárhrepps. Markmið verkefnisins er að finna lausnir sem byggja á borgaðu þegar þú hendir - kerfi, draga úr sóun og hvetja til aukinnar flokkunar úrgangs. Verkefnið mun nýtast öðrum sveitarfélögum síðar.
Ráðuneytið greiðir Skaftárhreppi alls kr. 10.500.000. Að verkefninu kemur auk Skaftárhrepps ReSource International ehf og er þetta framhald af fyrra tilraunaverkefni. Skaftárhreppur hefur undanfarin tvö ár unnið að því að breyta úrgangsstjórnunarkerfinu sínu með það að markmiði að skila sem bestum ávinningi til íbúa svæðisins og til umhverfisins. Ferlið hófst haustið 2019 þegar Skaftárhreppur ákvað að láta greina umhverfisáhrif og finna leiðir til að lækka kostnað við sorpförgun í Skaftárhreppi. Verkfræðistofan ReSource International ehf. hefur unnið að verkefninu með heimamönnum. Sett voru upp sex mismunandi sorphirðukerfi ásamt því að athuga áhuga íbúa á þessum mismunandi leiðum við sorphirðu. Gerðar voru að auki úrgangsgreiningar til að sjá hvaða áhrif þessar breytingar á sorphirðu höfðu á magn og flokkun úrgangs.
Niðurstöður tilraunaverkefnisins sýna að fleiri flokkunarmöguleikar úrgangs skila bestum árangri. Meginatriðið er að áherslan sé á endurvinnsluefni og að betri flokkun skili minni almennum úrgangi. Kostnaður við að sækja sorp á hvert heimili var 2/3 af heildarkostnaði sveitarfélagins í úrgangsmálum og hefur sveitarfélagið ákveðið að hætta að sækja úrgang heim til íbúa og bjóða í staðinn öflugar grenndarstöðvar. Í kjölfar þessarar niðurstöðu var ákveðið að skoða tilraunaverkefnið borgum þegar við hendum sem ráðuneytið styrkir og lýkur því verkefni væntanlega haustið 2022.
Verkefnislýsinguna má lesa hér