Leitin að gullskipinu á RUV 13. mars 2022 klukkan 20:15
Gullskipið sem hvílir í Skeiðarársandi hefur verið mörgum hugðarefni. Skipið er hollenskt, heitir Het Wapen von Amsterdam og strandaði á Skaftafellsfjöru 1667. Gull og gersamar eru í skipinu.
Leitin að gullskipinu er löng saga og enn hefur ekki tekist að finna flakið í sandinum. Bergur Lárusson á Kirkjubæjarklaustri hóf leitina og fékk til liðs við sig Kristinn í Björgun og fleiri. Nú hefur Gísli Gíslason hafið leit að nýju og verður sýndur sjónvarpsþáttur um gullleitina 13. mars 2022 á RUV.
Líkan að Gullskipinu barst menningarmálanefnd Skaftárhrepps fyrir stuttu. Birgir Þórarinsson, þingmaður, hafði frétt af sölunni, talaði við Ragnar Jónsson á Dal og saman fóru þeir félagar og keyptu skipið á 150 þús. krónur. Barist var um að fá líkanið en með loforði um að það færi austur í Skaftárhrepp fengu Birgir og Ragnar skipið. Ragnar tók þátt í gullleitinni á sínum tíma og var viðstaddur þegar kom í ljós að það var ekki Gullskipið sem menn voru að grafa upp heldur þýskur togari. Menningarmálanefndin og sveitarstjóri samþykktu að greiða fyrir skipið og þar með er það komið til okkar austur á Klaustur. Menningarmálanefnd þakkar þeim félögum fyrir árveknina og snögg viðbrögð.
Jónatan Stefánsson, eigandi líkansins, var afskaplega ánægður þegar hann frétti að að skipið væri komið austur og myndi þar með minna á sögu Gullskipsins og gullleitina næstu árin. Líkanið var örlítið laskað og er í viðgerð hjá Ragnari Jónssyni og Skúla Jónssyni, listasmið, í Þykkvabæ. Saga þessa líkans er sú að það var ónefnt safn á Íslandi sem pantaði það frá Víetnam. Þegar líkanið kom var það mikið skemmt og vildu starfsmenn safnsins ekki taka við því. Jónatan Stefánsson keypti líkanið, lagfærði það og var með til sýnis í Sandgerði árum saman.
Gullskipið verður til sýnis á Skaftárstofu þegar búið verður að lagfæra og smíða glerkassa utan um það.
Meiri upplýsingar um gullleitina og gullskipið á Eldsveitir.is