Íþróttamaður ársins hjá Ungmennasambandi Vestur-Skaftafellssýslu árið 2020 er Svanhildur Guðbrandsdóttir. Svanhildur hefur stundað hestamennsku frá fæðingu. Henni hefur gengið vel og var með hæstu einkunn yfir landið í knapamerkjunum 2019 og var valin efnilegasti íþróttamaður USVS árið 2012 og hún hefur staðið undir þeim titli. Árið 2021 var Svanhildur valin í U21 landsliðið og hafði möguleika á að fara á heimsmeistaramótið í hestaíþróttum sem átti að halda í Herning í Danmörku. Því móti hefur verið frestað og nú verður Svanhildur að keppa við alla knapa landsins um að komast í eldra landsliðið. En hún stefnir hátt og aldrei að vita hvað gerist.
Foreldrar Svanhildur, Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, reka tamningastöðina á Syðri - Fljótum í Meðallandi og hefur Svanhildur tekið virkan þátt í tamningum og umönnun hesta frá því hún man eftir sér. Og því lá beint við að spyrja hvort Svanhildur hafi alltaf haft áhuga á hestum?
Ég man ekki eftir öðru en að dagarnir hafi alltaf snúist um hesta. Á tamningastöðinni heima er alltaf nóg af hrossum á húsi og fullt að gera.
En hvernig hefur formlegu námi í tamningum og hestamennsku verið háttað?
Ég tók stúdentspróf í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Hestalínu þar sem að bæði voru kenndir bóklegir og verklegir áfangar sem snéru að hestum, meðferð þeirra og tamningu. Þegar ég útskrifaðist lá leiðin á Hóla í Hjaltadal, þar sem ég stunda nám í dag. Hestafræðin á Hólum er kjörið nám fyrir þá sem að hafa áhuga á hestum og starfsemi í kringum þá. Námið er gefandi og fræðandi. Alla daga erum við í hesthúsinu eða að læra einhver fræði um hesta. Ég er alla daga með fólki sem hefur brennandi áhuga á hestum eins og ég sem að hentar mér mjög vel.
Nú hefur þú áður farið á heimsmeistaramót. Heldur þú að það skipti máli fyrir þig sem keppanda að vita hvað bíður þín?
Þegar að mamma fór með Þokka 2015 og vann heimsmeistaratitilinn í tölti var ég aðstoðamaður hennar. Ég sá þar hvað fer fram ,,bakvið tjöldin“. Aðstæðurnar eru aðeins aðrar en heima á Íslandi og umgjörðin stærri og meiri. Þetta var ómetanleg reynsla fyrir mig og ég veit hvernig er að vera keppandi. Þetta er besti undirbúningur sem ég gat fengið fyrir það að verða keppandi sjálf.
Eljusemi og dugnaður skiptir miklu en það er líka mikilvægt að hafa aðstoð og stuðning annarra. Það þarf að huga að mörgu þegar kemur að hestamennsku. Það þarf að fylgjast með líkamlegu ástandi hestsins og andlegri líðan, ekki síður en afkastagetu hans.
Það er líka mikilvægt að leggja sig fram og gera sitt besta og gera sér grein fyrir samspili manns og hests. Það er ekki nóg að hesturinn sé í góðu standi, knapinn þarf að vera það líka. Mér finnst líka alltaf leiðinlegt þegar að hestinum er kennt um það sem að miður fer, það er oftar undir knapanum komið að þjálfa hestinn þannig að hann hafi úthald í keppni og sé í góðu standi. Knapinn verður síðan að skoða hvernig til tókst eftir keppnina. Þar þarf að íhuga undirbúning og vinnu knapans ekki síður en frammistöðu hestsins. Þetta er samvinna manns og hests.
Íþróttamaður ársins var tilnefndur á ársþingi USVS sem var haldið á Hótel Dyrhólaey í Mýrdal 9. júní 2021. Þar voru veitt verðlaun og fólki þakkað fyrir starf í þágu sambandsins. Fréttir af ársþingingu má sjá á www.usvs.is
Íþróttastarf í fámennum byggðarlögum er víða metnaðarfullt þó ekki sé aðstaðan endilega eins góð og á stærri stöðum. Svanhildur er vel að verðlaununum komin og árangur hennar sýnir vel hvað einlægur áhugi og ástundum getur komið þeim langt sem setja sér háleit markmið. Við óskum Svanhildi alls hins besta og Vestur-Skaftfellingar munu örugglega fylgjast með árangri hennar næstu árin.