Fyrr í sumar var starf sveitarstjóra Skaftárhrepps auglýst laust til umsóknar og rann umsóknarfrestur út þann 4. júlí sl. Alls sóttu 11 einstaklingar um stöðuna. Intellecta ráðningarstofa sá um ráðningarferlið í samráði við sveitarstjórn Skaftárhrepps. Sveitarstjórn þakkar umsækjendum kærlega fyrir sýndan áhuga á starfinu.
Sveitarstjórn Skaftárhrepps hefur ráðið Einar Kristján Jónsson sem sveitarstjóra og mun sveitarstjórnin staðfesta ráðningu hans á aukafundi þann 9. ágúst næstkomandi.
Einar Kristján hefur verið sveitarstjóri Húnavatnshrepps síðustu átta ár, hann er reynslumikill stjórnandi og hefur mikla þekkingu á sveitarstjórnarmálum og atvinnulífinu. Einar Kristján hefur gegnt fjölmörgum trúnaðar- og félagsstörfum í gegnum tíðina.
„Ég er spenntur og er fullur tilhlökkunar að taka við starfi sveitarstjóra Skaftárhrepps og kynnast og vinna með því ágæta fólki sem þar býr. Það er mikill mannauður í sveitarfélaginu og ég sé endalaus tækifæri til þess að skapa sterka og sjálfbæra framtíð fyrir íbúa svæðisins. Ég mun gera allt sem ég get til að láta gott af mér leiða í þágu sveitarfélagsins og byggja upp enn betra samfélag til framtíðar.“
Sveitarstjórn Skaftárhrepps væntir þess að eiga gott samstarf við Einar Kristján og býður hann velkominn til starfa hjá sveitarfélaginu.