Veitingastaðurinn Kjarr restaurant opnaði á Kirkjubæjarklaustri 17. júní 2022 með því að öllum íbúum var boðið í kaffi og tertu. Mjög margir þáðu boðið og var greinilegt að fólk kunni vel að meta að sjá gistihúsið, eða gamla hótelið, fá nýtt líf. Margir eiga góðar minningar úr þessu húsi sem var reist 1938 af fjölskyldu Lárusar Helgasonar og Elínar Sigurðardóttur á Klaustri. Hótelið þjónaði gestum til ársins 1994 þegar öll starfsemin fluttist á Hótel Klaustur. Frá árinu 1997 var Kirkjubæjarstofa með sína starfsemi í húsinu en flutti í efri hæð heimavistarálmu Kirkjubæjarskóla á Síðu í febrúar 2021.
Kjarr restaurant býður upp á mat af matseðli frá hádegi og til kvölds ásamt þvi að um miðjan daginn má kaupa létta rétti og kaffi. Veðursæld er rómuð við Systrafoss og kann fólk vel að meta að geta setið úti á palli í sólinni og skjólinu. Eigendur Kjarr eru þau Baldvin Lár Benediktsson, Lárus Hilmar Sigurðsson og Vigdís My Diem Vo. Strákarnir unnu lengi í Hörpunni, bæði á Kolabrautinni og í veitingaþjónustunni og svo störfuðu þeir á La Primavera en síðustu tvö ár hefur Baldvin tekið þátt í ævintýri Sælkerabúðarinnar en Lárus starfað í Stálvík sem kom sér vel þegar átti að klæða eldhúsið með stáli. Vigdís lærði konditor og bakara hjá Sandholtsbakaríi og vann þar í mörg ár. Eftir meistaraskólann starfaði Vigdís hjá ísbúðinni Skúbb og var bakari og konditor á Edition hóteli í Reykjavík. Þau þrjú hafa öll brennandi áhuga á matargerð og draumurinn er að reka eigin veitingastað. Þess má geta að Baldvin Lár og Lárus Hilmar eru afkomendur Siggeirs og Soffíu sem lengst af sáu um rekstur hótelsins á Klaustri.
Gistihúsinu var mikið breytt að innan til að þjóna nýju hlutverki en að utan hefur ekki verið hróflað við neinu en bætt við palli vestan við húsið. Eigendur hússins eru þau Jóna Björk Jónsdóttir, Haukur Valdimarsson, Lilja Magnúsdóttir, Þuríður Helga Benediktsdóttir og Birgir Teitsson sem er arkitekt hjá Arkís og hannaði breytingarnar á húsinu. Húsið keyptu þau af Eldvilja ehf. vorið 2020 en framkvæmdir hófust í byrjun árs 2022 þegar samið var við rekstraraðila Kjarrsins. Markmiðið eigendanna var að kaupa húsið og gera það þannig úr garði að sem flestir gætu notið þess og að það nýttist samfélaginu til heilla. Telja eigendur að það hafi tekist prýðilega með opnum veitingastaðar þar sem verða sögulegir hlutir og myndir á veggjum veitingahússins.
Það var sérlega ánægjulegt að nánast allir iðnaðarmenn sem komu að framkvæmdunum voru heimamenn í Skaftárhreppi. Ber þar fyrst að nefna fyrirtæki Ólafs Hans Guðnasonar rafvirkjameistara, ÓHG raflagnir, sem vann þrekvirki með að setja rafmagn og öryggiskerfi í allt húsið. Tæki og tól sem notuð eru í nútímalegu eldhúsi eru mörg og allt þarf rafmagn. Byggingarfyrirtækið RR tréverk sem feðgarnir Rúnar Páll Jónsson og Ragnar Smári Rúnarsson reka, sá um mikinn hluta smíðavinnunnar ásamt Tröllhamri sem er smíðafyrirtæki í eigu Benedikts Lárussonar. Pétur Davíð Sigurðsson á Búlandi sá svo um pípulagnirnar. Dúkararnir komu úr öðrum byggðarlögum frá fyrirtækunum Gólfefni og Harðviðarval. Enn er eftir að nefna einn snjallan og hjálpsaman sveitunga, Skúla Jónsson, sem smíðaði hurðir fyrir salernin og aðstoðaði eigendur við að panelleggja í salnum. Vilja eigendur koma á framfæri þökkum til allra sem komu að verkinu. Þetta var mikið verkefni sem hófst í byrjun febrúar og tókst að ljúka á innan við fimm mánuðum
Vonandi á þessi nýi veitingastaður eftir að vera staður fyrir íbúa og gesti í Skaftárhreppi til að koma saman, borða góðan mat og njóta náttúrunnar í þessu fallega umhverfi við Systrafoss.
Allar nánari upplýsingar um veitingastaðinn má finna á Kjarrrestaurant.is