Vefurinn okkar í Skaftárhreppi, klaustur.is, er kominn í sparifötin. Sveitarstjórn samþykkti í upphafi ársins 2020 að búa til nýjan vef. Lilja Magnúsdóttir, kynningarfulltrúi Skaftárhrepps, fékk það verkefni að leita tilboða. Gott tilboð barst frá Stefnu og hefur Lilja unnið með þeim að hönnun og svo flutningi efnis af gamla vefnum yfir á þann nýja. Flutningi er ekki alveg lokið. Fundargerðir koma inn allra næstu daga og nokkur önnur atriði á eftir að laga.
En hvers vegna er verið að gera nýjan vef þegar verið er að ræða um að sameina Skaftárhrepp öðrum hreppum? Við ætlum KANNSKI að sameinast en það gerist í fyrsta lagi eftir tvö ár. Þangað til þurfum við góðan vef. Við ætlum líka að halda áfram að vera Skaftfellingar, Meðallendingar, Álftveringar og fólkið á Klaustri. Við ætlum ekki að flytja neitt. Við þurfum áfram að segja fréttir og deila upplýsingum fyrir þá sem hér búa. Við viljum deila myndum af okkar fallegu sveit, segja frá 17. júní hátíðarhöldum, árshátíðinni í grunnskólanum, tónleikum, gönguferðum, jeppaferðum og uppátækjum. Og svo sameinumst við KANNSKI ekki.
En við skulum njóta þess að eiga þennan fallega vef. Endilega sendið ábendingar um allt sem mætti betur fara á vefnum á kynning@klaustur.is
Lilja Magnúsdóttir, kynningarfulltrúi Skaftárhrepps