Það voru skemmtileg tímamót hjá Maríu og Eyjólfi í þessari viku þegar þau fluttu með börnin tvö í nýtt einbýlishús á Kirkjubæjarklaustri að Skriðuvöllum 14. Húsið var byggt af RR tréverk og hófst bygging þess vorið 2021. Þetta er fyrsta einbýlishúsið sem er byggt á Klaustri frá árinu 2003 þegar Sólrún Ólafsdóttir og Lárus Valdimarsson byggðu sitt hús rétt hjá gömlu húsunum við Systrafoss.
Hverfið sem verið er að byggja er á lóðinni við læknisbústaðinn. Hús fyrir lækninn var byggt 1950 eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins. Þar var íbúð á efri hæðinni fyrir lækninn og fjölskyldu og niðri var aðstaða til að taka á móti sjúklingum. Þegar heilsugæslustöðin var byggð færðist móttaka sjúklinga þangað og núna eru tvær íbúðir í læknishúsinu.
Lóðirnar við læknisbústaðinn voru auglýstar í október 2020 og fljótlega var hafist handa við gatnagerðarframkvæmdir sem Framrás efh sá um. Í apríl 2021 var komin gata, platan að húsi þeirra Maríu og Eyjólfs var komin í júlí, og húsið var risið í ágúst 2021. Það eru nokkur handtök eftir þegar búið er að reisa og nú í mars 2022 er húsið tilbúið og fjölskyldan flutt inn.
En hvaðan kemur þetta kjarkmikla, unga fólk? María ólst upp í Efri-Vik í Landbroti að hluta og líka í Hafnarfirði þar sem hún var flesta vetur og gekk í skóla þar. Eyjólfur ólst upp í Breiðholti og Hvassaleiti en kom austur í sumarvinnu. Þar kynntust þau María og hafa mikið verið fyrir austan síðan. María er aðstoðarhótelstjóri á Hótel Laka en Eyjólfur vinnur á bílaverkstæðinu Unicars á Kirkjubæjarklaustri.
Hvers vegna vilja þau setjast að á Kirkjubæjarklaustri? Við fluttum alveg hingað austur árið 2014 og höfum ekki viljað fara aftur í alla þessa umferð og stress sem er í bænum. Það er svo gott að búa hérna. Ekkert stress. Gott að að vera svona nálægt nátturunni og æðislegur staður til að ala upp börnin okkar tvö, Erik Hrafn og Arndísi Evu.
Við óskum Maríu, Eyjólfi og börnunum til hamingju með nýja heimilið!