Sveitarstjórn Skaftárhrepps ákvað á fundi sínum, þann 26. mars 2025 að ráða Elísabetu, Gunnarsdóttur í stöðu skólastjóra sameiginlegs leik- og grunnskóla Skaftárhrepps.
Elísabet lauk B.Ed gráðu í uppeldis- og menntunarfræði árið 2009 frá menntavísindasviði Háskóla Íslands og er með leyfisbréf til kennslu á grunnskólastigi. Hún lauk Dipl. Ed. í stjórnun menntastofnana árið 2017 frá sama skóla. Hún hefur starfað sem deildarstjóri miðstigs við Kársnesskóla frá 2017 til dagsins í dag. Hún hóf kennslu við Álftanesskóla árið 2006 og starfaði þar við textílmennt og við umsjónarkennslu til ársins 2017. Elísabet hefur haft umsjón með innleiðingu Heimsmarkmiða sameinuðu þjóðanna og verið tengiliður miðstigs Kársnesskóla við innleiðingu farsældarlaga og stýrt ýmsum faglegum verkefnum eins og breytingu verkferla um eineltismál og forvarnir, innleiðingu á spjaldtölvum og vinnu við innleiðingu breytinga við aðalnámskrá grunnskóla. Hún starfaði sem verkefnastjóri innleiðingar á verkefninu Velferð barna í grunnskólum Garðabæjar á árunum 2016-2017. Elísabet hefur einnig starfað sem leiðbeinandi í leikskóla.
Sveitarstjórn Skaftárhrepps biður Elísabetu velkomna í starfsmannahóp sveitarfélagsins.