Rafmagnsævintýrið á Klaustri
Listatvíeykið Yotta Zetta opnar sýninguna Rafstöðvarævintýrið þann 17. júní 2021 16-19 á neðri hæð Gistihússins sem stendur hjá Systrafossi á Kirkjubæjarklaustri.
Á sýningunni vinnur tvíeykið með sögu rafvæðingar sem átti sér stað í byrjun 20. aldar þegar bændur í Skaftárhreppi tóku sig saman og lærðu af bók hvernig þeir gætu byggt rafaflsvirkjanir og byggðu í kjölfarið á þriðja hundrað virkjanir víðsvegar um landið. Vatnsaflsvirkjanir veittu yl og varma án sótsins og stybbunnar sem fylgdi lýsislömpum og olíukyndingu. Lífskjör fólks tóku stakkaskiptum, auk þess sem iðnaður blómstraði og hagvöxtur í landinu jókst. Á Klaustri var rafmagnið nauðsynlegt til að hægt væri að slátra og frysta kjöt en sauðfjárbúskapur var aðalatvinnugreinin á þessu svæði.
Hluti af sýningunni er Gullmolinn, gullmálað inntakshús uppi á Klausturfjalli. Inntakshúsið er fyrir rafstöð sem framleiðir 100 kw af rafmagni og hefur verið í gangi í marga áratugi. Meiri upplýsingar um Gullmolann og rafstöðina má lesa á Eldsveitir.is
Sýningin er auk Gullmolans fólgin í skissum, ljósmyndum og textum sem skrásetja undirbúningsferli verksins, auk tvívíðra og þrívíðra verka sem gera sér smávirkjanasögu Íslands að viðfangsefni á einn eða annan hátt.
Aðgangur er ókeypis og boðið verður upp á léttar veitingar.
Menningarmálanefnd Skaftárhrepps styrkti uppsetningu sýningarinnar.