Nýbúið er að endurnýja samstarfssamning milli Skaftárhrepps, Vatnajökulsþjóðgarðs, Kirkjubæjarstofu og Kötlu jarðvangs um rekstur Skaftárstofu. Slíkur samningur hefur verið í gildi frá árinu 2014 en upphaflega voru Friður og frumkraftar og Skaftáreldar einnig aðilar að samningnum. Samstarfinu er þannig háttað, í stuttu máli, að Skaftárhreppur leggur til húsnæði fyrir upplýsingamiðstöðina og greiðir af því fastan rekstrarkostnað s.s. rafmagn og hita. Vatnajökulsþjóðgarður leggur til starfsfólk, upplýsinga- og fræðsluefni og lausar innréttingar. Kirkjubæjarstofa veitir ráðgjöf og aðstoð við skipulagningu og rekstur og fræðsluefni um sögu og náttúru svæðisins. og Katla jarðvangur leggur fram upplýsingar um jarðvanginn.
Rekstur upplýsingamiðstöðvar er samfélaginu afar mikilvægur, einkum ferðaþjónustuaðilunum og þetta samstarf því öllum til hagsbóta. Upplýsingagjöfin kemur þó ekki í veg fyrir aðra nýtingu á húsinu enda hafa þar, á undanförnum árum, átt sér stað íbúafundir, árshátíðir grunnskólans, fatamarkaðir, kökubasar, jólamarkaðir, leiksýningar, tónleikar, jólatrésskemmtanir og margt fleira. Slíkt krefst hins vegar skipulagningar, eins og segir í samningnum:
„Reiknað er með að einstakir viðburðir geti átt sér stað í félagsheimilinu á opnunartíma Skaftárstofu, en slíka viðburði þarf að ræða og skipuleggja með góðum fyrirvara ... Skrifstofa Skaftárhrepps tekur við bókunum á húsinu – hefur samráð við yfirlandvörðu Skaftárstofu í tölvupósti með cc á þjóðgarðsvörð og aðstoðarþjóðgarðsvörð. Húsið verður leigt út án litla salarins að öllu jöfnu. Sveitarfélagið ræður til starfa tilsjónar/umsjónarmann hússins sem sér um opnun og viðveru á meðan á viðburðum stendur. Félagsheimilið verði almennt ekki leigt út júní-ágúst.“
Ástæðan fyrir því að reynt er að leigja litla salinn ekki út með húsinu, nema nauðsyn krefji, er til þess að hægt sé pakka söluvöru og upplýsingaefni Vatnajökulsþjóðgarðs niður á stuttum tíma. Yfir hásumarið er mesta álagið á Skaftárstofu og þá er félagsheimilið að öllu jöfnu ekki leigt út. Viðburðir sem tengjast samfélaginu eru þó alltaf velkomnir í húsið en krefjast tillitsemi allra aðila á álagstíma.
Þessa mánuðina er vissulega lítið um mannfagnaði – en vonandi verðum við dugleg að hittast og gera okkur glaðan dag, í félagsheimilinu okkar, þegar aðstæður leyfa á nýjan leik og tekur skrifstofa Skaftárhepps við bókunum eins og fram kemur í samningnum.