Kirkjubæjarskóli á Síðu var vígður 30. október 1971 en þá hafði skólinn starfað í nokkrar vikur frá fyrstu skólasetningunni sem var 4. október. Á þessum tíma voru fimm hreppar þar sem nú er Skaftárhreppur: Álftavershreppur, Skaftártunguhreppur, Leiðvallahreppur, Kirkjubæjarhreppur og Hörgslandshreppur. Hrepparnir sameinuðust um að byggja skólann og var ákveðið að byggja heimavist því langt er fyrir marga nemendur að Kirkjubæjarklaustri. Með byggingu skólans á Kirkjubæjarklaustri efldist byggðin þar, þjónusta varð meiri á Klaustri og margir reistu sér þar íbúðarhús. Klaustur varð að þeirri héraðsmiðstöð sem það er í dag.
Í tilefni afmælisins verður haldin afmælisveisla fyrir nemendur og starfsfólk föstudaginn 29. október. Það mun ekki verða opinn viðburður vegna uppgangs covid smita í skólum og samfélaginu. Kirkjubæjarskóli mun taka þátt í Uppskeru- og þakkarhátíðinni 12. nóvember næstkomandi með sýningu á verkum nemenda sem öll munu hafa tilvísun í skólahald Skaftárhrepps. Eftir áramót, áætlað 9. febrúar, verður haldið skólaþing sem verður tileinkað skóla framtíðarinnar. Markmið skólaþings er að veita nemendum tækifæri til að taka þátt í lýðræðislegri samræðu um málefni sem hefur merkingu fyrir daglegt líf þeirra og skipulag skólastarfsins og að efla vitund nemenda um eigin áhrif í skólastarfinu og fá fram sjónarmið nemenda í ýmsum málaflokkum. Afmælisárinu verður lokað með sérstakri hátíðardagskrá í tengslum við árshátíð skólans þann 7. apríl 2022. Sá viðburður verður opinn öllum og gefst þar tækifæri til að fagna hálfrar aldar afmæli Kirkjubæjarskóla saman.
Áður en Kirkjubæjarskóli var stofnaður voru fimm skólar í Skaftárhreppi. Í Hörgslandshreppi var skólastarf í Múlakoti og stendur húsið enn og er því vel við haldið en það var byggt 1909. Áður var líka skóli á Kálfafelli en það skólahús var líka byggt 1909 en það hús er búið að rífa. Í Kirkjubæjarhreppi voru reist tvö skólahús, annað á Kirkjubæjarklaustri 1917 en hitt í Þykkvabæ í Landbroti árið 1914. Álftveringar byggðu skólahús á Herjólfsstöðum 1913 og stendur það hús enn og er vel við haldið og komið í eigu einkaaðila. Í Meðallandi var kennt í samkomuhúsinu í Efri-Ey eftir að það var reist 1932 en áður hafði verið kennt á bæjunum. Í Skaftártungu var kennt á bæjunum, síðast á Ljótarstöðum á heimili Helgu Bjarnadóttur sem var kennarinn en hún býr á Klaustri í dag.
Það voru ekki allir sammála þeirri hugmynd að reisa einn skóla fyrir þessa fimm hreppa og margar tillögur komu fram áður en komist var að samkomulagi um að byggja Kirkjubæjarskóla á Síðu á Kirkjubæjarklaustri. Fyrstu hugmyndir voru að prestsetrið legði skólanum til lóð, þar sem Skerjavellir og Skriðuvellir eru í dag, en horfið var frá þeirri hugmynd því það þótti ekki nógu gott pláss fyrir svo stóra byggingu. Var þá leitað að öðrum stað en ekkert gekk fyrr en Siggeir Lárusson, bóndi á Kirkjubæ I, ákvað að gefa tún á Glennurum fyrir skólalóð. Þar með var höggvið á hnútinn og hægt var að hefja undirbúning byggingarinnar.
Framkvæmdir við byggingu Kirkjubæjarskóla hófust með skóflustungu 23. febrúar 1967 en margt kom upp sem tafði byggingarframkvæmdir. Nokkrir sveitungar voru ósáttir við staðsetninguna og tóku að fara um sveitina að safna undirskriftum gegn byggingunni en oddvitar allra hreppanna héldu sínu striki, áfram skyldi haldið. Kallaður var saman íbúafundur og þar var ákveðið að skólinn skyldi vera á Klaustri. Á þessum fundi var ákveðið að skólinn skyldi vera fyrir unglingastigið, 13 - 15 ára börn, sem yrðu í skóla 6 -8 mánuði og fyrir barnafræðslustigið, þ.e. 8 - 13 ára börn með tvískiptan námstíma. Heimavist var byggð fyrir 35 - 42 börn og var heimavistin í notkun allt til ársins 1992 en eftir það hafa öll börn verið keyrð heim á hverjum degi. Eftir að íbúarnir höfðu sæst á sameiginlegan staðsetningu skólans unnu þeir saman sem einn maður og veitti ekki af því ekki gekk snuðrulaust að fá menntamálaráðuneytið til að veita byggingarleyfi og fjármagn til skólans. Það tók langan tíma og þurfti byggingarnefndin að leita aðstoðar þingmanna og annarra til að fá leyfi og fjármagn til byggingarinnar.
Frá upphafi var hugmyndin að nýta skólann sem hótel á sumrin og var byggingin hönnuð með það í huga en það var Jes Einar Þorsteinsson, arkitekt, sem teiknaði Kirkjubæjarskóla. Samið var við Ferðaskrifstofu ríkisins um að leigja skólahúsnæðið undir rekstur Edduhótels og var því þannig háttað allt til ársins 1994 þegar öll starfsemi hótelsins færðist í bygginguna sem í dag er Hótel Klaustur. Við enda heimavistarganganna voru byggðar íbúðir fyrir skólastjóra og kennara en íbúð fyrir ráðskonu skólans var teiknuð lítil og þröng undir matsalnum. Var reynt að breyta þessu á meðan unnið var með teikningarnar en ráðuneytismenn létu sér ekki segjast, svona skyldi þetta vera. Það tók slíkan tíma að fá framkvæmdaleyfið samþykkt í ráðuneytinu að heimamenn ákváðu að steypa grunninn á eigin kostnað til að bygging skólans gæti hafist.
Kennt var í kjallara heimavistarálmunnar í bráðabirgðahúsnæði fyrsta árið. Skólanefnd fyrir nýjan skóla var kosin strax að loknum sveitarstjórnarkosningum vorið 1970. Í nefndinni var einn maður úr hverjum hreppi og voru það þeir: Ólafur Jón Jónsson á Teygingalæk fyrir Hörgslandshrepp, Siggeir Björnsson í Holti á Síðu fyrir Kirkjubæjarhrepp, Júlíus Oddsson á Langholti fyrir Leiðvallarhrepp, Guðgeir Sumarliðason í Austurhlíð fyrir Skaftártunguhrepp og Guðmann Ísleifsson í Jórvík fyrir Álftavershrepp. Menntamálaráðuneytið skipaði séra Sigurjón Einarsson formann nefndarinnar. Fyrsta verk nefndarinnar var að ákveða nafn skólans og voru nefndarmenn sammála um nafnið Kirkjubæjarskóli á Síðu.
Fyrsti skólastjóri Kirkjubæjarskóla á Síðu var Jón Hjartarson og setti hann skólann 4. október 1971. Jón var skólastjóri næstu 19 árin og eiginkona hans, Áslaug Ólafsdóttir var matráðskona fyrsta veturinn en kenndi við skólann eftir það. Haustið 1970 fluttu kennarahjón inn í íbúðina á neðri heimavistarganginum. Það voru þau Ragnhildur Ragnarsdóttir og Birgir Þórisson en þau störfuðu lengi við Kirkjubæjarskóla.Tveir kennarar voru ráðnir að skólanum haustið 1971, þau Sveinn Ágústsson og Hanna Hjartardóttir sem seinna tók við skólastjórastöðunni af Jóni haustið 1990. Guðmundur Þorsteinsson aðstoðarskólastjóri leysti Hönnu af í námsleyfi veturinn 1998-1999 en hún var skólastjóri til ársins 2000 og hafði þá starfað við skólann í 29 ár. Hanna lét af störfum árið 2000 og tók Valgerður Guðjónsdóttir við starfi skólastjóra og gengdi því til ársins 2003. Stella Kristjánsdóttir var skólastjóri árin 2003 – 2007. Ragnar Þór Pétursson var skólastjóri 2007 – 2008. Kjartan Kjartansson var skólastjóri árin 2008 - 2018. Katrín Gunnarsdóttir er nú starfandi skólastjóri en hún tók við starfinu á haustönn 2018.
30. október 1971 var haldin glæsileg vígsluhátíð þar sem mættir voru íbúar, ráðherrar, þingmenn, arkitektinn, smiðir, kennarar, bankastjórar og fleiri. Formaður byggingarnefndar, Jón Helgason í Seglbúðum sem þá var oddviti Kirkjubæjarhrepps og séra Sigurjón Einarsson, sóknarprestur og formaður framkvæmdanefndar, héldu ræður. Skólabyggingin var 5700 fermetrar en þó vantaði enn að byggja kennslustofur. Kennt var í geymslum undir heimavistarganginum og í félagsheimilinu. Næstu árin var haldið áfram að byggja og árið 1974 voru komnar fjórar kennslustofur og síðar var bætt við þremur kennslustofum.
Héraðsbókasafnið á Kirkjubæjarklaustri reis við skólann og var vígt 1988. Hefur safnið verið ómetanlegur þáttur í skólastarfinu alla tíð en bókasafnið var áður i turninum í matsalnum og þar er enn geymsla fyrir bækur. Sundlaugin bættist við 1975 og glæsilegt íþróttahús árið 2004. Aðstaða til skólahalds er því góð í dag en alltaf þarf að bæta og breyta og eru uppi hugmyndir um að byggja verkmenntastofur fyrir skólann. Verður vonandi af því sem allra fyrst.
Efri hæð heimavistarálmunnar ásamt íbúðinni var tekin í gegn veturinn 2020 - 2021. Þar er nú Kirkjubæjarstofa, þekkingarsetur. Þar vinna starfsmenn ýmissa stofnana og þar eru sveitarstjórnarskrifstofur Skaftárhrepps en þær voru áður á efri hæðinni í félagsheimilinu Kirkjuhvoli. Íbúðin á neðri hæð heimavistarálmunnar er nú tónlistarskóli Skaftárhrepps. Kaffistofa kennara og ýmis aðstaða fyrir starfsfólk Kirkjubæjarskóla er á neðri heimavistarganginum ásamt heimilisfræðistofu.
Hér hefur verið stiklað á stóru um byggingarsögu Kirkjubæjarskóla á Síðu en skólastarfið sjálft verið minna til umfjöllunar. Mjög margt hefur breyst í skólastarfi á þessum fimmtíu árum og það væri efni í heila bók að fara yfir allt það sem gert hefur verið. Látum því staðar numið að sinni.