Nunnuklaustrið - fornleifauppgröftur
Eitt af verkefnum Kirkjubæjarstofu og Skaftárhrepps var að fá fornleifafræðinga til að grafa upp rústir nunnuklaustursins. Grafið var við gamla kirkjugarðinn á Klaustri, við Minningarkapellu séra Jóns Steingrímssonar, og fundust ýmsir munir. Í myndbandinu hér til hliðar má sjá nokkra af mununum og myndir frá uppgreftrinum.
Smelltu á myndina til að horfa. Það er texti en ekki hljóð.
Fullveldi í kjölfar Kötlugoss - hátíð haldin 1. des 2018
Fullveldishátíð var haldin í skugga Kötlugoss í sveitunum milli sanda 1. des 1918. Hátíðin okkar hét því Fullveldi í kjölfar Kötlugoss. Undirbúningur hátíðarinnar var samstarfsverkefni Kirkjubæjarskóla og Kirkjubæjarstofu.
Smelltu á myndina til að sjá ljósmyndir frá hátíðinni.
Stuttmynd um Grímsvatnagosið 2011
Heimildarmynd sem kvikmyndafyrirtækið Beit vann fyrir Kirkjubæjarstofu í tilefni þess að 100 ár voru liðin frá Kötlugosi 1918. Rifjuð eru upp önnur gos sem hafa orðið frá 1918 í Skaftárhreppi og talað við fólk um hvernig það er að upplifa eldgos. Nemendur í Kirkjubæjarskóla tóku viðtölin. Myndin var frumsýnd á hátíðinni Fullveldi í kjölfar Kötlugoss.
Smelltu á myndina til að horfa á 11 mínútna stuttmynd.
Fornar ferðaleiðir
Mikil og vönduð vinna hefur farið fram á vegum Kirkjubæjarstofu við að safna heimildum um fornar ferðaleiðir en þær eru merkur minnisvarði um ferðamáta og erfið lífsskilyrði fyrri kynslóða og teljast nú meðal okkar dýrmætustu menningarminjum.
Hefur afrakstur þeirrar vinnu verið tekinn saman í heimildarritinu Fornar ferðaleiðir í Vestur-Skaftafellssýslu - um aldamótin 1900 sem Kirkjubæjarstofa gaf út í tilefni af tuttugu ára afmæli stofunnar (Bókaútgáfan Sæmundur, 2018).
Myndirnar í bókinni voru fengnar úr myndabankanum Myndspor sem er eitt af verkefnunum sem unnin hafa verið á Kirkjubæjarstofu.
Bókin er til sölu á Kirkjubæjarstofu og í helstu bókaverslunum.
Vörðuverkefnið
Vörður hafa um aldir verið notaðar sem vegvísar og voru helstu ferðaleiðir oft vel varðaðar, sérstaklega varasömustu hlutar leiðanna. Margar vörður standa enn, sumar óhaggaðar, aðrar hálffallnar eða rústir einar og verðugt er það verkefni að endurheimta fornar ferðaleiðir og vörður.
Með vaxandi áhuga á útivist og aukinni áherslu á varðveislu og miðlun sögu- og menningarminja hefur skapast vettvangur til að vinna að endurheimt þessara fornu ferðaleiða og tengdra minja. Undanfarin sumur hefur hnitsetning á fornum ferðaleiðum og vörðum farið fram á vegum Kirkjubæjarstofu og hafa nú verið hnitsettar tæplega 1000 vörðu
Hnausar í Meðallandi
Verkefnastjóri menningar- og minjamála, Vera Roth, hefur á vegum Kirkjubæjarstofu unnið að gerð viðskiptaáætlunar um uppbyggingu strandminjasafns að Hnausum í Meðallandi en jörðin Hnausar og síðustu ábúendur hennar eru nátengd sögu skipstranda í Vestur-Skaftafellssýslu. Tilgangur safnsins og meginmarkmið er að varðveita og miðla sögu skipstranda á Meðallandsfjörum. Einnig er áformað að á safninu verði sérstök sýning um ævi og störf Vilhjálms Eyjólfssonar hreppstjóra og síðasta ábúanda þar. Á Hnausum eru merk torfhús sem gerð voru upp í upprunalegri mynd að frumkvæði Vilhjálms og Þórðar Tómassonar í Skógum, í samvinnu við Þjóðminjasafnið, en húsin hafa nýlega verið tekin til varðveislu í Húsasafn Þjóðminjasafns Íslands.
Verkefnið er unnið í samstarfi við Landgræðslu ríkisins sem fékk jörðina í arf eftir Vilhjálm.
LUK landfræðilegt upplýsingakerfi
Upplýsingar sem safnað hefur verið um örnefni og fornar ferðaleiðir hafa verið skráðar í landfræðilegt upplýsingakerfi (LUK) sem varðveitir staðsetningu fyrirbæranna samkvæmt hnitakerfi ISNET93 ásamt helstu upplýsingum. Þar eru meðal annars skráðar staðsetningar á vörðum, tóftum, byrgjum og öðrum mannvirkjaleifum sem greinanlegar eru á stafrænum loftmyndum og/eða tilnefndar í örnefnaskrám. Hafa öll slík fyrirbæri fengið sérstakt kennimerki í gagnagrunninum (nafnberi 2.14) sem gerir kleyft að kalla fram til birtingar allar slíkar minjar með einni fyrirspurn í gagnagrunninn. Geta þessir úrvinnslumöguleikar komið að góðum notum t.d. þegar unnið verður áfram með fornminjaskráningu í Skaftárhreppi. Er þetta aðeins eitt dæmi um þá möguleika til úrvinnslu gagna sem LUK-kerfið býður uppá. LUK-gagnagrunnur Kbstofu er í umsjá verkefnastjóra.
Ofangreind verkefni hafa þegið styrkveitingar frá Skaftárhreppi, Byggðastofnun, SASS, Mennta- og menningarmálaráðuneyti, Umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Vinum Vatnajökuls ofl.
Á myndinni eru frá vinstri. Ólafía Jakobsdóttir, Sigurður Kristinsson, Björn Snorrason, Bjarki Guðnason og Vera Roth.
Örnefni úr Hörgslandshreppi
Kirkjubæjarstofa hóf árið 2000 að hnitsetja örnefni kerfisbundið í landfræðilegt upplýsingakerfi (LUK) og var unnið með hliðsjón af örnefnaskrám Örnefnastofnunar með myndkort Loftmynda ehf. sem kortagrunn. Örnefnin voru staðsett í samvinnu við heimamenn og staðkunnuga. Verkefnið hófst sem tilraunaverkefni að frumkvæði Búnaðarfélags Hörgslandshrepps og þáverandi forstöðumanns Kirkjubæjarstofu en var síðan fram haldið árið 2013 þegar fjármagns var leitað til að staðetja örnefni í öllum Skaftárhreppi. Staðsetningu örnefnanna hefur miðað vel - þó með hléum í samræmi við fjármagn sem tekist hefur að afla til verksins. Afurð þessarar vinnu eru nákvæm hnit fyrir hvert einstakt örnefni sveitarfélagsins ásamt viðbótum og athugasemdum. Verkefnið er unnið í samstarfi við Landmælingar Íslands og örnefnadeild Árnastofnunar (áður Örnefnastofnun). Hér taka fulltrúar Búnaðarfélag Hörgslandshrepps við cd diskum þar sem er að finna örnefni í Hörgslandshreppi.
Sagnir af Suðurlandi
Á þessum vef er fjöldi þjóðsagna á Suðurlandi, frá Hellisheiði að Lómagnúpi. Sögurnar eru merktar inn á kort þannig að það er auðvelt að finna sögur úr Mýrdal, Eyrarbakka eða Skálholti og svo eru þær líka flokkaðar eftir efni. Mjög góður vefur fyrir krakka á öllum aldri, hver vill ekki góða draugasögu fyrir svefninn? Myndina teiknaði pólskur maður sem bjó í Vík, J. Laczkowski. Íslensku þjóðsögurnar heilla ekki síður heimamenn en aðflutta og verður skemmtilegt samstarfsverkefni allra.
Smelltu á myndina til að fara á vefinn.
Eldsveitir.is
Á þessum vef eru mjög margar frásagnir af sögu, menningu og náttúru í Skaftárhreppi. Dæmi má nefna frásagnir af skipsströndum, uppbyggingu á Kirkjubæjarklaustri, sölu sauða úr Skaftárhreppi til Bretlands, sögur af Þórunni grasakonu, sagt er frá listamönnunum Kjarval og Erró sem báðir tengjast þessari sveit og mörgu fleiru. Eigandi og ritstjóri vefsins er Lilja Magnúsdóttir.
Smelltu á myndina til að fara inn á vefinn.
Myndspor
Safn ljósmynda úr Skaftárhreppi. Lilja Magnúsdóttir, ritstjóri Eldsveita var að leita að myndum á sinn veg þegar fréttist að Fótspor, félag áhugafólks um sögu og menningu í Skaftárhreppi var líka að leita ljósmynda. Fótspor sótti um styrki, Lilja fékk lánaðar ljósmyndir, skannaði þær inn en skilaði þeim síðan til eigenda sinna. Það voru íbúar í Skaftárhreppi og brottfluttir sem lánuðu myndirnar sem voru skannaðar inn. Nú eru komnar í safnið um 6500 ljósmyndir. Safnið er ekki opið almenningi eins og er en myndir úr því hafa birst í bókinni Fornar ferðaleiðir og margar myndanna eru á vefnum Eldsveitir.is. Fótspor er eigandi Myndspors.
Mörg fleiri verkefni hafa verið unnin á Kirkjubæjarstofu frá 1997 og má sjá upptalningu á þeim í Greining á starfsemi Kirkjubæjarstofu 2019 sem er birt undir liðnum Skýrslur.