Kirkjubæjarstofa flytur

Kirkjubæjarstofa á Síðu flytur á efri hæðina.
Kirkjubæjarstofa á Síðu flytur á efri hæðina.

Kirkjubæjarstofa, þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri, hefur flutt starfsemina úr gamla gistihúsinu uppi á hlaðinu við Systrafoss á efri gang heimavistarálmu Kirkjubæjarskóla. Hæðin hefur verið gerð upp en þar voru íbúð og herbergi fyrir nemendur sem voru í heimavist til 1992 að heimavistin var lögð niður og öll börn keyrð heim daglega.

Kirkjubæjarstofa er þekkingarsetur þar sem unnið er að ýmsum verkefnum. Kirkjubæjarstofa fékk Menningarverðlaun Suðurlands 2019 fyrir framlag til metnaðarfullra menningarverkefna. Verkefnin hafa verið ólík en öll tengd náttúru eða menningu. Eitt af stóru verkefnum Kirkjubæjarstofu er skráning örnefna og upp úr því verkefni varð til bókin Fornar ferðaleiðir í Vestur Skaftafellssýslu sem Vera Roth skrifaði og kom út árið 2018. Frá Kötlugosi til fullveldis var framlag Kirkjubæjarstofu til að minnast Kötlugossins og Fullveldisins 1. des 2018 og má sjá afraksturinn af því verkefni á vefnum www.katla100.is, söfnun ljósmynda og sagna úr sveitinni má sjá á vefnum www.eldsveitir.is en það verkefni var að hluta unnið á Kirkjubæjarstofu. Eitt þeirra verkefna sem verið er að vinna núna í samvinnu við nokkra Sunnlendinga er skráning þjóðsagna á Suðurlandi á vefinn Sagnirafsudurlandi.is. Önnur verkefni í vinnslu eru skráning, hnitsetning og kortlagning á vörðum við þjóðleiðir og aðrar fornar ferðaleiðir í Skaftárhreppi, skráning á sögum um skaftfellskar konur og fleira.

Starfsemi Kirkjubæjarstofu var í gamla gistihúsinu á hlaðinu við Systrafoss frá stofnun hennar 1997. Gamla gistihúsið var selt síðastliðið vor og voru kaupendur félagið Burstasteinn ehf. Enn hefur ekki verið ákveðið hvaða starfsemi verður í húsinu en vonandi fréttist af því þegar líður að vori.

Félagið Eldvilji ehf, sem stofnað var árið 2000, var eigandi að gamla gistihúsinu og mun einnig verða eigandi að húsnæði Kirkjubæjastofu, þekkingarseturs, á efri hæð heimavistarálmunnar í Kirkjubæjarskóla. Skaftárhreppur leggur til húsið og Kirkjubæjarstofa leggur til styrkveitingu frá SASS/sóknaráætlun Suðurlands, til að endurnýja húsnæðið, að upphæð kr. 67,500.000.- Verkið var boðið út og fékk RR-Tréverk ehf á Kirkjubæjarklaustri verkið samkvæmt tilboði að upphæð kr. 60,984,603.- Áætlaður eignarhlutur Skaftárhrepps í Eldvilja ehf verður 47,5% og Kirkjubæjarstofu 52,5%

Í húsnæði Kirkjubæjarstofu hafa nokkrar stofnanir starfsstöð og flytja þær allar í nýtt húsnæði. Það eru Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, Bændabókhaldið, Fræðslunet Suðurlands-símenntun, Náttúrustofa Suðausturlands, atvinnu- og kynningarfulltrúar Skaftárhrepps og Vatnajökulsþjóðgarður. Skrifstofur Skaftárhrepps flytja í nýja húsnæðið á sama tíma og er tilhlökkunarefni að vinna saman að uppbyggingu og framfaramálum í Skaftárhreppi.

Inngangur á Kirkjubæjarstofu er frá bílastæðinu ofan við Kirkjubæjarskóla þar sem áður var gengið inn í íbúðirnar í heimavistarálmunni. Aðgengi fyrir fatlaða er með lyftu frá bílaplaninu við Íþróttamiðstöðina. Vinsamlegast látið vita af ykkur í síma 487 4645 ef þið viljið koma þá leið því þá þarf að koma á móti og opna. 

Ólafía Jakobsdóttir, forstöðumaður Kirkjubæjarstofu, þekkingarseturs á Kirkjubæjarklaustri.

Inngangurinn

Gengið er inn í Kirkjubæjarstofu þar sem áður var gengið inn í íbúðirnar. Lyfta er í húsinu en þá þarf að koma inn frá planinu við Íþróttamiðstöðina.

Á neðri hæðinni er Tónlistarskóli Skaftárhrepps.

Systrastapi

Menningarstofnanir á Klaustri allar í sama húsi: Kirkjubæjarskóli á Síðu, Héraðsbókasafnið á Kirkjubæjarklaustri, Tónlistarskóli Skaftárhrepps og Kirkjubæjarstofa, þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri.