Ástarbrautin er 5 km hringleið þar sem gengið er upp hjá Systrafossi, yfir Klausturheiðina, niður hjá Bjarnartættum og komið við á Kirkjugólfinu í bakaleiðinni. Gönguleiðin er mjög vinsæl og er komin inn í ferðabækur og ferðavefi víða um heim.
Styrkurinn að þessu sinni var 6,61 miljón en áður hafði Framkvæmdasjóður ferðamannastaða styrkt lagfæringu á Ástarbrautinni um 6 milljónir. Þá var byggður upp göngustígur í brekkunni þar sem gengið er niður hjá Bjarnartættum, austan við Klaustur. Skógrækt ríkisins sér um þann hluta Ástarbrautarinnar sem liggur upp í gegnum skóginn við Systrafoss og fær skógræktin 1.2 miljónir til að lagfæra og byggja, en á hverju ári þarf að lagfæra stíginn enda umferðin mjög mikil.
Nokkrir aðrir staðir í Skaftárhreppi verða lagfærðir og byggðir upp t.d. Fjaðrárgljúfur, Dverghamrar og stoppistaðurinn í Skaftáreldahrauninu. Á kortið á vef Ferðamálastofu má sjá nánari upplýsingar um styrkveitingar á þessu ári og fyrri ár, bæði af landsáætlun og framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Sjá kortið hér.
Ástarbrautin byrjar hjá Systrafossi. Uppi á brúninni er listaverkið Gullmolinn og flesta daga má sjá fólk á göngu. (Ljósm. LM)
Það er mikið útsýni af Ástarbrautinni. Hér sést vel yfir skóla- og íþróttasvæðið. Handan Skaftár er grunnur gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs. (Ljósm. LM)
Við gönguleiðina eru fræðsluskilti sem starfsfólk Kötlu jarðvangs setti upp fyrir nokkrum árum. Bæta þarf gróðurskemmdir við skiltin. Sandra Brá, Jóna Björk og Tíbrá í gönguferð með blakliðinu, haustið 2020 þegar ekki mátti koma saman í hóp inni í íþróttahúsi, þá var gott að eiga gönguleið um víðáttuna í heiðinni. (Ljósm. LM)
Stígurinn við Bjarnartættur var byggður upp sumarið 2020. Gamli stígurinn er til hægri. Grassvörðurinn var illa farinn og víða rann vatn eftir stígnum og grófst á hverju ári meira og meira, sérstaklega efst. Það voru heimamenn sem unnu verkið með leiðsögn starfsmanns Stokka og steina sem sérhæfir sig í stígagerð og grjót- og torfhleðslum. (Ljósm. LM)