Læknisbústaðurinn á Kirkjubæjarklaustri stendur á stórri lóð sem nú hefur verið ákveðið að nýta undir fleiri íbúðarhús. (Ljósmyndir með fréttinni LM)
Verktakafyrirtækið Framrás frá Vík í Mýrdal hófst handa við gatnagerð á lóð læknisbústaðarins á Kirkjubæjarklaustri rétt fyrir páska 2021. Verið er að undirbúa lóðir fyrir þrjú hús sem búið er að úthluta til þriggja verktaka: Nýjatún ehf mun byggja raðhús með þremur íbúðum sem fá götuheitið Skriðuvellir 2, 4, og 6. Byggðaból ehf. mun byggja parhús sem verður nr. 8 og 10 og svo mun RR tréverk ehf byggja einbýlishús á Skriðuvöllum 14. Læknisbústaðurinn sem fyrir er á lóðinni verður Skriðuvellir nr. 12. Verktakar geta hafist handa við byggingarframkvæmdir um leið og gatnagerð lýkur 1. maí 2021.
Skipulagðar hafa verið 8 lóðir á læknisreitnum og má sjá skipulag á læknisreit á mynd og svo er mynd og nánari skýringar í öðru skjali. Skipt verður um jarðveg í öllum botnlöngunum í sumar, lagnir lagðar eftir því sem úthlutun lóða miðar áfram. Verkinu skal að fullu lokið 1. maí 2022. Stefnt er á að malbika botnlangana í beinu framhaldi, sumarið 2022.