Kennarhópurinn var metnaðarfullur og lagði mikið á sig til að nemendur gætu lokið námi á Klaustri. Hér sjást Ragnhildur Ragnarsd., Jón Hjartarson, skólastjóri, Áslaug Ólafsdóttir og Hanna Hjartardóttir sem var lengi kennari og seinna skólastjóri. Sólrún Lárusdóttir situr á spjalli við Hönnu.
Átakaár. Breytingar í skólamálum fyrir fimmtíu árum.
Haustið 1971 var Kirkjubæjarskóli á Síðu stofnaður. Það ár var skólaárið lengt og ári síðar var byrjað að kenna til gagnfræðaprófs og landsprófs á Kirkjubæjarklaustri en áður þurftu nemendur að fara í burtu til að ljúka námi. Flestir fóru í Skógaskóla. En þessar breytingar urðu ekki baráttulaust. Um það skrifar Jón Hjartarson, skólastjóri Kirkjubæjarskóla.
Síðla dags þann 3. ágúst árið 1971 ókum við hjónin í hlað á Kirkjubæjarklaustri, ég hafði verið ráðinn skólastjóri að Kirkjubæjarskóla á Síðu, sem var að hefja göngu sína sem grunnskóli allra hreppanna á milli sanda, Álftavershrepps, Skaftártunguhrepps, Leiðvallahrepps, Kirkjubæjarhrepps og Hörgslandshrepps. Veðrið var gott, logn og sólskin, og ég minnist þess, þar sem ég stóð á hlaðinu framan við skólann og litaðist um, hvað ég hlakkaði til að taka til starfa og láta til mín taka við mótun hins nýja skóla. Ég var nýskriðinn út úr háskólanum, hafði lokið námi í kennsluréttindum og stjórnun þá um sumarið, og var undir sterkum áhrifum frá hugmyndum 68-hreyfingarinnar um að ungt námsfólk ætti að fara út á land að loknu námi og taka þátt í samfélaginu þar sem það settist að. Ég var frá fyrstu stundu ákveðinn að vera trúr þessari hugsjón eða áskorun og draga hvergi af mér.
Nemendur í Kirkjubæjarskóla mars 1972
Íþróttir eru alltaf mikilvægar en aðstaðan var önnur
Nemendur nutu þess að ljúka námi í sinni heimasveit
Strax á fyrsta vetri var gengið í að lengja skólann, fyrst úr sjö og hálfum mánuði í 8 mánuði og fljótlega í fulla 9 mánuði. Með lengingu skólaársins hófst barátta fyrir því að flytja allt grunnnám heim í hérað svo nemendur gætu lokið bæði landsprófi og gagnfræðaprófi í sinni heimasveit [1]. Þetta skipti foreldra miklu máli fjárhagslega auk þess sem það styrkti skólann faglega mjög mikið. Þessar breytingar gengu ekki í gegn baráttulaust.
Á þessum árum var skólum landsins yfirleitt skipt í tvennt, barnaskóla frá 1. – 6 bekk og svo gagnfræðaskóla 1. – 4. bekk, sem lauk með landsprófi í 3. bekk og gagnfræðaprófi í 4. bekk. Í Barnaskólanum kenndu kennarar sem lokið höfðu kennaraprófi frá Kennaraskólanum og voru yfirleitt í Sambandi íslenskra barnaskólakennara (SÍB). Í gagnfræðaskólanum voru sérgreinakennarar sem annaðhvort voru með háskólapróf í sinni grein eða kennarar frá Kennaraskólanum með viðbótarnám í sinni kennslugrein og voru í Landssambandi framhaldsskólakennara (LFSK). Með grunnskólalögunum runnu þessi tvö félög fljótlega saman í eitt kennarafélag eins og nú er.
Stundum var aðeins um unglingaskóla að ræða 1. – 2. bekkur, nemendur voru þá í sínum heimaskóla fyrstu tvo veturna og fóru þaðan í gagnfræðaskóla til að ljúka landsprófi eða gagnfræðaprófi. Þessi skólaskipan breyttist svo 1974 með tilkomu grunnskólalaganna þegar grunnskólinn var gerður að einu skólastigi.
Á Kirkjubæjarklaustri var gert ráð fyrir að nemendur austan Sands færu í Héraðsskólann á Skógum. En tilkoma kennslu til landsprófs og gagnfræðaprófs í heimabyggð breytti stöðunni og varð m.a. til þess að brátt lagðist kennsla í Héraðsskólanum á Skógum niður, þegar fleiri sveitarfélög fóru að dæmi okkar austan Sands og tóku allt grunnskólanámið heim í hérað.
Til að geta kennt til landsprófs þurfti formlegt leyfi frá Menntamálaráðuneytinu en slíkt leyfi var aldrei afgreitt fyrir Kirkjubæjarskóla því þeir sem réðu húsum í ráðuneytinu voru sannfærðir um að kennararnir við skólann réðu ekki við að kenna landsprófsgreinarnar með sómasamlegum hætti. Þeirri kennslu yrði því sjálfhætt. Við þessu var brugðist á þann hátt að foreldrar samþykktu að landsprófsnemendurnir byrjuðu skóladaginn kl. 8 á morgnana, liðlega tveim tímum áður en hinn eiginlegi skóli byrjaði, og kennararnir samþykktu að skipta þessum tímum á milli sín launalaust, staðráðnir í að sanna bæði fyrir sjálfum sér og öllum öðrum að Kirkjubæjarskóli á Síðu væri fullfær um að reka fullkominn grunnskóla frá 1. til 10. bekkjar.
Vorið 1973 gengu nemendur okkar til landsprófs eins lög gerðu ráð fyrir og þarf ekki að orðlengja það að Kirkjubæjarskóli var þetta vor með langhæstu meðaleinkunn á landsprófi yfir Suðurland. Við höfðum unnið sigur, eftir það var aldrei spurt hvort við gætum hlutina.
Veturinn þar á eftir var kennt bæði til landsprófs og gagnfræðaprófs og stóð sú skipan þangað til skólum landsins var breytt í eitt skólastig, grunnskóla frá 1. - 10 bekk.
Jón Hjartarson
í mars 2022.
Karitas á Fossum og Jóna Þorsteins. Mjög margir afkomendur Köru voru og eru í Kirkjubæjarskóla.
Gestir við vígslu Kirkjubæjarskóla á Síðu 4. nóvember 1971
Fyrst voru heimavistargangarnir og matsalurinn byggður og skólinn var Edduhótel á sumrin.
[1] Landspróf - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið: Landspróf (oft nefnt landspróf miðskóla) var samræmt próf sem veitti rétt til inngöngu í mennta- og kennaraskóla á Íslandi á árunum 1946-1974.
Landspróf hóf göngu sína árið 1946 er ný fræðslulög voru sett. Nemendur tóku prófið á 16. ári og voru landsprófsgreinarnar íslenska, danska eða annað Norðurlandamál, enska, landafræði, náttúrufræði, stærðfræði og eðlisfræði. Nemendur þurftu að fá meðaleinkunnina 6 til þess að ná landsprófi og þar með eiga möguleika á skólavist í menntaskóla.[1]
Áður en landspróf kom til sögunnar voru haldin sérstök inntökupróf í menntaskólana tvo sem þá voru starfandi, Menntaskólann á Akureyri og Menntaskólann í Reykjavík og komust einungis 25 nemendur inn í síðarnefnda skólann. Inntökuprófið þótti strembið og höfðu nánast engir möguleika á að komast að nema þau sem áttu efnaða foreldra sem gátu greitt fyrir sérstaka aukatíma. Með nýju fræðslulögunum varð sú breyting að nemendur gagnfræða- og héraðsskóla gátu tekið landspróf í sínum heimaskólum víðsvegar um land og skyldu prófin fara fram samtímis um allt land.
Reyndin varð sú að með tilkomu landsprófs áttu fleiri en áður tök á menntaskólanámi og því má segja að prófið hafi átt sinn þátt í að auka efnahagslegt jafnrétti til náms hér á landi og þau skiluðu fjölbreyttari flóru nemanda inn í skólana, t.d. börnum efnalítilla foreldra sem síður höfðu haft tök á að senda börn sín til mennta í því kerfi sem fyrir var