Erró og Katrín Jakobsdóttir ræða saman um stofun Erróseturs á Kirkjubæjarklaustri. Myndin er tekin 2012 en þá var Katrín menntamálaráðherra. (Ljósm. ÓJ)
Til hamingju með daginn, Erró eða Gundur eins og fjölskyldan á Klaustri kallaði strákinn. (More about Erró in english and icelandic on Eldsveitir.is)
Erró, Guðmundur Guðmundsson, fæddist í Ólafsvík 1932 en ólst upp á Kirkjubæjarklaustri. Þar tók hann þátt í öllum störfum í sveitinni, meðal annars gróðursetti hann tré í skóginum sem nú prýðir staðinn. En hugur Erró hneigðist snemma til lista og enn er hann að mála á vinnustofu sinni í París og setja upp sýningar. Yfirlitssýning á verkum Erró er nú í Listasafni Reykjavíkur og ber nafnið Sprengikraftur mynda. Mjög stór sýning sem sýnir feril listamannsins frá því hann byrjaði í myndlist um 1950. Ferill Erró spannar nú um 70 ár og geri aðrir betur. Til heiðurs stráknum sem ólst upp á Klaustri og varð frægur og afkastamikill listamaður vilja vinir og fjölskylda reisa setur helgað Erró. Undirbúningur er í gangi á vegum menntamálaráðuneytisins og áhugahóps um Errósetur.
Hvers vegna á að vera setur helgað listamanninum Erró á Kirkjubæjarklaustri?
Erró, Guðmundur Guðmundsson, ólst upp á Kirkjubæjarklaustri. Hann kynntist Kjarval og heillaðist af myndlist. Þegar Erró var unglingur fór hann til náms í Reykjavík en fyrir tvítugt var hann farinn til Noregs að læra myndlist, næst til Ítalíu og svo til annarra landa til að afla sér þekkingar og reynslu. Heimili Erró hefur verið í París í marga áratugi en rætur Erró á Íslandi eru á Kirkjubæjarklausti. Félag um Errósetur var formlega stofnað 2012, í tilefni af 80 ára afmæli Erró á því ári.
Erró hefur fylgst með þessu máli frá byrjun af miklum áhuga. Árið 2012 ákvað Erró að gefa eitt af hans þekktustu verkum, Facescape sem er 4x2 metrar að stærð. Gjafabréfið er einfalt. Verkið er úr handmáluðum portúglöskum keramikflísum og bíður enn í geymslu á vegum Listasafns Reykjavíkur.
Hverjum datt í hug að búa til setur í nafni Erró á Kirkjubæjarklaustri?
Nokkrir af vinum Erró og fjölskyldu datt í hug að byggja safn til að vekja athygli á æviverki Erró en hann hefur sýnt myndlist um allan heim og ævistarf hans er mjög mikið.
Hugmyndin kom fyrst formlega fram árið 2010 og var búin til stofnskrá. Á sama tíma hófst undirbúningur að byggingu gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri. Samstarf hófst um verkefnið, með þátttöku stjórnvalda um Þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri, með gestastofu Vatnajökulþjóðgarðs, Kirkjubæjarstofu, stjórnsýslu Skaftárhrepps og áhugahópi um Errósetur í einni byggingu miðsvæðis á Kirkjubæjarklaustri. Stofnaður var starfshópur og síðan verkefnisstjórn þar til verkefnið færðist til Framkvæmdasýslu ríkisins 2011 og nýr stýrihópur tók við verkefninu. Katrin Jakobsdóttir, menntamálaráðherra tók mjög vel í hugmyndina en ný stjórnvöld hættu þátttöku í samstarfsverkefninu og ákveðin var ný staðsetning fyrir gestastofu þjóðgarðsins sunnan við Skaftá, gegnt Kirkjubæjarklaustri. Myndin hér fyrir neðan af Erró og Katrínu Jakobsdóttur og var tekin 2012 á Hótel Klaustri. (Eig. ÓJ).
Árið 2016 hófu Skaftárhreppur og Kirkjubæjarstofa og samstarf um að koma á fót þekkingarsetri og skrifstofu Skaftárhrepps í heimavistarálmu Kirkjubæjarskóla, stjórn Errósetur gerðist aðili að verkefninu. Sveitarstjórn tók hugmyndinni fagnandi og síðan hefur verkefnið verið unnið í góðu samstarfi Kirkjubæjarstofu, sveitarstjórnar og stjórnar Errósetur.
En af hverju þarf setrið að vera við hlið Þekkingarseturs Kirkjubæjarstofu?
Kirkjubæjarstofa fékk styrk að upphæð 67,5 millj. úr Byggðaáætlun 2018-2024, sem sértækt verkefni sóknaráætlanasvæða og að forsvari SASS og Byggðastofnunar. Verkefnið sem sótt var um var uppbygging aðstöðu fyrir þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri ásamt hönnunarvinnu fyrir aðliggjandi Errósetri, þar sem tillit væri tekið til ýmiskonar samlegðaráhrifa Þekkingarseturs og Errósafns. Samstarfsaðilar Kirkjubæjarstofu um verkefnið eru Skaftárhreppur og félag um Errósetur.
Sveitarfélagið lagði til efri heimavistarálmuna inn í einkahlutafélagið Eldvilja og Kirkjubæjarstofa lagði til andvirði styrkveitingarinnar. Í styrkumsókninni var gert ráð fyrir að Errósetur risi áfast við Þekkingarsetrið. Sveitarstjórnir og skipulagsyfirvöld í Skaftárhreppi hafa verið með í ráðum enda eru formaður stjórnar Kirkjubæjarstofu og varaformaður skipaðir af sveitarsjórn Skaftárhrepps.
Er gott að listatengd starfsemi sé á lóð grunnskólans?
Félag um Errósetur telur mjög mikilvægt að Errósetrið sé í námunda við grunnskólann. Myndlist er hluti af uppeldi barna rétt eins og tónlist, íþróttir og bókmenntir. Erró ólst upp á hlaðinu á Klaustri og þar kynntist hann listmálaranum Kjarval sem kom austur til að mála í heimasveitinni en Kjarval var frá Efri- Ey í Meðallandi. Erró fékk að fylgjast með vinnu Kjarvals og þegar Kjarval fór á haustin gaf hann stráknum liti og striga til að prófa sig áfram. Á myndinni hér fyrir neðan sést húsið sem Erró ólst upp og var á milli skólans og burstabæjarins. (Eig. myndar EAV)
Það er mikilvægt að börn alist upp með list og þess vegna telur félag um Errósetur að setrið eigi að nýtast samfélaginu og þá ekki síst skólunum. Þar verði fjölnota salur sem geti nýst undir sýningar annarra en á verkum Erró, bæði myndlistarsýningar, ljósmyndasýningar eða til fyrirlestrahalds. Salurinn gæti líka þjónað sem hátíðasalur fyrir Kirkjubæjarskóla t.d. fyrir skólasetningu, skólaslit, upplestrakeppni og aðrar uppákomur. Tónlistarskóli Skaftárhrepps gæti einnig nýtt sal Erróseturs til tónleikahalds.
Hvernig á að fjármagna Errósetur?
Reiknað er með fjárveitingu frá ríkinu til byggingar á húsi fyrir Errósetrið. Félag um Errósetur fékk fyrirtækið Expectus ehf vinna viðskiptaáætlun um Errósetrið árið 2018 og kynnti þá hugmynd fyrir þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra; Lilju Dögg Alfreðsdóttur. Ráðherra skipaði síðan starfshóp um Errósetur á Klaustri árið 2020 sem skilaði skýrslu til ráðherra í upphafi árs 2021. Formaður stjórnar Kirkjubæjarstofu og oddviti Skaftárhrepps átti sæti í starfshópnum.
Kirkjubæjarstofa og Skaftárhreppur fengu fyrirtækið Expectus til að vinna að nýju rekstrarlíkani 2020 sem byggir á að tveir rekstraraðilar, Eldvilji ehf sjái um byggingu Erróseturs og Kirkjubæjarstofa Þekkingarsetur sjái um rekstur safnisins. Lilja Dögg Alfreðsdóttir nýr menningar- og viðskiptaráðherra er nú með verkefnið um Errósetur á sínu borði og hefur hún þegar kynnt það í nýrri ríkisstjórn Íslands.
Eldvilji ehf, er í 100% eigu Kirkjubæjarstofu og Skaftárhrepps . Það hefur gefist vel að halda fasteignarekstri og fjárfestingum utan við daglegan rekstur þekkingarsetursins og er lagt upp með að halda því áfram. Miðað er við að fasteign fyrir Errósetur verði einnig sett inn í þetta félag og rekstur allra fasteigna verði á einum stað.
Kirkjubæjarstofa Þekkingarsetur hefur verið starfrækt sem sjálfseignarstofnun og mun verða það áfram. Þekkingarsetrið mun annast rekstur verkefna, sjá um sameiginlega kostnað og annast rekstur á safni í Errósetri. Með meirihluta eignarhaldi Kirkjubæjarstofu, Skaftárhrepps og síðar mögulegri aðkomu annarra er hugsunin sú að Eldvilji ehf. verði máttarstólpi í þróun samfélagsins horft til lengri tíma.
Hvað er Errósetur stórt?
Hönnunarteymi arkitektastofunnar Arkís, sem Egill Már Guðmundsson, leiddi vann frumdrög að byggingunni sem átti að hýsa gestastofuna líka. Eftir að ljóst var að gestastofan færi yfir ána varð til sú teikning sem nú liggur fyrir og gerir ráð fyrir um 400 fm grunnfleti. Egill Már Guðmundsson, bróðir Errós, gekk frá frumhugmynd að safninu og tengibyggingu við Kirkjubæjarstofu, þekkingarsetur. Ætlunin er að vinna áfram með þessa hugmynd.
Hvernig verður lífi og starfi Erró gerð skil?
Frá upphafi hefur verið gert ráð fyrir að gestir Erróseturs geti fræðst um líf, feril og þróun listamannsins þar til hann öðlaðist sess í alþjóðlegri listasögu. Sýningar á verkum Erró verða í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur en hann hefur gefið Listasafni Reykjavíkur mikið af verkum. Nú er uppi yfirlitssýning á verkum Erró sem kallast; Erró: Sprengikraftur mynda . Sýningin var opnuð 9. apríl og verður uppi til 29. september 2022.
Ósk félags um Errósetur er að hægt verði að taka skóflustungu að byggingunni sem allra fyrst.
Félag um Errósetur, Kirkjubæjarstofa Þekkingarsetur, Eldvilji ehf