Helsinginn Laki er hér í öruggum höndum hjá sveitarstjóra Skaftárhrepps. Starfsmenn Náttúrustofu Suðausturlands Rannveig Ólafsdóttir og Elín Erla Káradóttir og sjálfboðaliðar í helsingjasmöluninni fylgjast með. (Ljósm. LM)
Það var ævintýralegt og skemmtilegt að taka þátt í smölun og merkingu helsingja vestan við Brytalæki 16. júlí 2021. Fuglunum er smalað saman og merktir. Þetta er auðvelt vegna þess að á ákveðnum tíma ársins missa helsingjar flugfjaðrirnar og geta ekki flogið. Gps tæki fengu tveir fuglar þeir Laki og Hallmundur. Sveitarstjórn Skaftárhrepp ákvað að leggja rannsókninni lið með því að borga fyrir staðsetningartæki á fuglinn Laka.
Hér má sjá ferðir Laka og Hallmundar frá 16. júlí til 11. ágúst 2021. Laki heldur sig á fjöllum. Flýgur meðfram Hólmsá, upp með Hólmsárlóninu og þar í nágrenninu.
Til samanburðar er gaman að skoða hvert fuglinn Hallmundur hefur farið. Hallmundur byrjar við Brytalæki þar sem verið var að merkja fuglana, flýgur inn að Hólmsárlóni og þaðan í Álftavötn. Tekur svo flugið niður að bænum Flögu og er að vappa þar við Tungufljótið.
Helsingininn Guðmundur sem var merktur 2020 fór til Skotlands í vetur kom svo aftur og fór á heimaslóðirnar við Hólmsárlón. Hann tók svo flugið yfir að Álftavatni í Rangárvallasýslu og hefur verið þar í sumar.
Fróðlegt verður að fylgjast með þeim Laka, Hallmundi og Guðmundi næstu árin.
Rannsókn á varpi og fjölgun helsingja á Íslandi er viðamikið verkefni sem unnið er í samstarfi við Breta og Íra. Margar stofnanir koma að verkefninu s.s. Náttúrustofa Suðausturlands, Fuglaathugunarstöð Suðausturlands og Náttúrufræðistofnun Íslands. Helsingi verpti áður á Grænlandi og stofninn sem verpir hér er kallaður Grænlandstofn. Ekki er vitað hvers vegna svo margir fuglar kjósa að færa varpstöðvarnar til Íslands. Árið 2020 var talið að 15% stofnsins verpi á Íslandi, mest í Skaftafellssýslum. Nánari upplýsingar er að finna í frétt af vef Náttúrustofu Suðausturlands: Varpútbreiðsla helsingja á Suðausturlandi 2019 - 2020 .
Fyrst voru talin hreiður árið 2019 og má sjá niðurstöðurnar á töflunni hér fyrir neðan.
Varpsvæðið við Hólmsá hefur frá 2009 stækkað í báðar áttir meðfram ánniog nær nú langleiðina upp að Brytalækjum og niður fyrir Atley, en þar verpa helsingjar í háum björgum meðfram ánni eins og þeir gera á heimskautasvæðum.Dreifing varpsins við Hólmsá var nánast óbreyttfrá 2019 til 2020.Við Skaftá fundust alls átta fuglar, við Tungufljót fundust í 16varppör og 75fuglar. Einnig fundust þrjú varppör og 7 fuglar alls við Eldvatn í Meðallandi í lok júní.
Myndir frá smölun og merkingu helsingjanna 11. júlí 2021.
Hér er myndband sem sýnir hvað fuglarnir voru frelsinu fegnir. Í þessari girðingu voru um 150 fuglar en alls voru merktir um 300 fuglar þennan dag. Það var Arnór Þórir Sigfússon, dýravistfræðingur sem stýrði aðgerðum þennan dag.