(Ljósm. LM)
Prestsbústaðurinn á Kirkjubæjarklaustri setur mikinn svip á þorpið þar sem hann stendur í stórum garði beint á móti Kirkjubæjarskóla á Síðu. Húsið var reist 1939 og byggt við það 1973. Húsið var orðið afskaplega illa farið en hefur nú verið endurgert og má sannarlega þakka yfirmönnum þjóðkirkjunnar fyrir þær myndarlegu framkvæmdir.
Prestssetur var á Prestsbakka og þar bjó Sr. Jón Steingrímsson, eldklerkurinn frægi. En 1939 vildi Lárus Helgason bóndi á Kirkjubæjarklaustri fá prestssetrið og seldi kirkjumálaráðuneytinu 5 ha af túni Kirkjubæjarklaustursjarðarinnar, ásamt rétti til slægna, beitar og garðræktar og jafnframt afnotarétti af 5 kW af raforku frá heimarafstöðinni á Kirkjubæjarklaustri. Húsin sem standa við Skerjavelli og Skriðuvelli eru byggð á landinu sem fylgdi prestsbústaðnum, þar á meðal læknisbústaðurinn og nýju lóðirnar þar sem verið er að afhenda.
Á myndinni eru Reykjavíkurskvísur í heyskap á heimatúninu, Guðmunda S Kristinsdóttir og Þóra Sen. Þarna sér í prestsbústaðinn lengst til vinstri, læknisbústaðinn fyrir miðri mynd, fjárhúsin á Kirkjubæ II og félagsheimilið til hægri. Myndin er tekin af Jóni Sen stuttu fyrir 1960.
Prestsbústaðurinn var teiknaður af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins, reisulegt tveggja hæða hús. Árin 1972 - 1973 var húsið stækkað, bætt við eldhúsi og stofu sem Jes Einar Þorsteinsson arkitekt teiknaði og var húsið þá orðið 240 fm. Húsið er nú aftur orðið ágætt húsnæði fyrir prestinn og fjölskyldu hans en þar er líka skrifstofa prestsins.
Fyrstu ábúendur í prestsbústaðnum voru Sr. Gísli Brynjólfsson og Ásta Valdimarsdóttir. Þau voru áhugasöm um garðrækt og gróðursettu tré á lóðinni og ræktuðu grænmeti, þau byggðu líka fjárhús, fjós, hlöðu, hesthús og súrheysgryfju. Allt er þetta nú horfið nema eitt húsanna sem búið er að breyta í geymslu.
Fáir prestar hafa þjónað á Klaustri en næstur á eftir Sr. Gísla var Sr. Sigurjón Einarsson sem var prestur frá 1963 til 1998, þá tók við Sr. Bryndís Malla Elídóttir og þjónaði hún til 2006 þegar Sr. Ingólfur Hartvigsson kom og var hér í nokkur ár en svo var sr. Ingimar Helgason ráðinn prestur í Kirkjubæjarprestursprestakall 15. nóvember 2019. Nokkrir prestar hafa leyst af tímabundið sem ekki eru nefndir hér.
Myndin af kirkjukórnum er tekin utan við prestsbústaðinn á Klaustri. Sennilega er sr. Gísli ljósmyndarinn er Svava Þorleifsdóttir átti þetta eintak.
Í efstu röð frá vinstri: Siggeir Lárusson Klaustri, Sigurjón Einarsson organisti Mörk, Helgi Pálsson Fossi, Esra Pétursson læknir sem Svava Þorleifsdóttir segir að hafi stjórnað miklu í kórstarfinu og verið mikill tónlistarmaður, Páll Pálsson Efri-Vík er bakvið Esra, Lárus í Hörgslandskoti, Guðjón Magnússon frá Orrustustöðum, Elías Pálsson Seglbúðum og Helgi Sigurðsson í Hraunkoti á endanum.
Miðröð frá vinstri: Helga Jónsdóttir í Mörtungu, Svava Ólafsdóttir sem þarna var í Hörgsdal en var seinna húsmóðir á Hruna, Gyðríður Pálsdóttir Seglbúðum, Magnea Magnúsdóttir Efri-Vík, Soffía Kristinsdóttir Klaustri, Ásta Valdimarsdóttir prestsfrú á Klaustri.
Neðstu röð: Sigríður Jónsdóttir Prestbakka, Ásta Ólafsdóttir Mörtungu, Elín Einarsdóttir Breiðabólsstað, Svava Margrét Þorleifsdóttir Hraunkoti. Barnið á endanum er Erna Matthíasdóttir frá Breiðabólsstað, dóttir Elínar.
Stuttu eftir að prestshúsið var risið og þau Sr. Gísli og Ásta flutt inn voru fjórir breskir hermenn sendir austur að Klaustri til að setja upp strandvarðstöð til þess að fylgjast með ferðum skipa og flugvéla. Hermönnunum var komið fyrir í einu herbergi í prestsbústaðnum en þar bjó eini maðurinn á Klaustri sem gat talað ensku, séra Gísli. Myndaðist góður vinskapur milli bresku hermannanna og fólksins á Klaustri. Seinna komu Ameríkanar í stað Bretanna en þeir tengdust ekki á sama hátt og skipti oft um mannskap og voru allir farnir 1943. Á þessum tíma var Erró, Guðmundur Guðmundsson, krakki á Klaustri og fór hann oft með hermönnunum á skíði og hafði talsvert saman við þá að sælda.
Myndin er tekin fyrir utan prestsbústaðinn á Kirkjubæjarklaustri í kringum 1945
Frá vinstri: Valdimar Gíslason situr á handriðinu, óþekktur piltur stendur innan við grindverkið, Guðrún Bjarnadóttir, Séra Gísli Brynjólfsson, Steingrímur Lárusson Hörgslandkoti situr á grindverkinu, Svava Ólafsdóttir sem lengi bjó á Hruna stendur framan við grindverkið, Stefán á Rauðabergi og Guðmundur Guðmundsson, Erró, sem ólst upp á Kirkjubæ I á Klaustri lengst til hægri.
Eig. ljósmyndar er Lárus Siggeirsson og hann á líka ljósmyndina af húsinu sem er ofar á þessari síðu.
Fyrir fáum árum var viðbygging hússins lagfærð en svo á síðustu árum hafði komst raki í kjallara eldri byggingarinnar og sá hluti hússins var orðinn óíbúðarhæfur vegna myglu. Varð að taka ákvörðun um hvað gera skyldi. Einn möguleikinn var að rífa húsið, annar að selja það og sá þriðji að fara í gagngerar endurbætur. Sérfræðingar komu og tóku út húsið og mátu það svo að hægt væri að bjarga húsinu og því þyrfti ekki að koma til þess að rífa húsið. Kirkjumálasjóður fjármagnaði framkvæmdir og ákveðið var hvernig ætti að gera við húsið.
Upphófst mikil vinna við og í kringum húsið. Var meðal annars skipt um allan jarðveg fyrir framan húsið á bílastæðinu og ný drenlögn gerð í kringum eldri hluta hússins. Einnig var skipt um þak á eldri hluta hússins en þakplöturnar þar voru meira og minna ónýtar. Inni í húsinu var svo kjallarinn allur tekinn í gegn til að sporna við myglunni og aðeins útveggir stóðu heilir eftir, nýir veggir settir í staðinn með nýrri einangrun og allt þrifið eftir kúnstarinnar reglum. Í eldri hluta hússins var sett nýtt gólfefni á öll gólf, einnig nýir ofnar ásamt því að baðherbergin voru gerð upp. Húsið var málað að utan sem innan.
Það má með sönnu segja að gamla húsið sé í raun nýtt enda var endurbyggingin viðamikil og vonir standa til að komið hafi verið í veg fyrir frekari skemmdir næstu árin. Í sumar verður vonandi farið í að laga bílaplanið og klára hinar ýmsu viðgerðir í garðinum enda garðurinn úr sér genginn og orðinn hálfgerð órækt í staðinn fyrir bæjarprýði eins og hann áður var.
Þar sem mætast nýi og gamli hlutinn er notalegur pallur. (Ljósm. LM)
Prestsbústaðurinn er falleg miðja Kirkjubæjarklausturs og ánægjulegt að sjá hvað húsið er glæsilegt.
Lilja Magnúsdóttir, Kynningarfulltrúi Skaftárhrepps