Umhverfis- og náttúruverndarnefnd Skaftárhrepps afhenti Umhverfisverðlaun Skaftárhrepps 2020 – á rafrænni Uppskeru- og þakkarhátíð Skaftárhrepps í fyrstu viku nóvember 2020.
Eftirfarandi einstaklingar og félagasamtök voru heiðraðir
Hjónin á Borgarfelli, Lilja Guðgeirsdóttir og Sigfús Sigurjónsson, fengu viðurkenningu fyrir mikla snyrtimennsku. Bæði er umhverfi íbúðarhúss og útihúsa og kjötvinnsluhús til fyrirmyndar. Auk þess eru Kjötvinnslan Borgarfelli mikilvægt framlag til að draga úr kolefnisfótspori afurða og er það þakkarvert.
Á Dalshöfða reka Díana Ósk Pétursdóttir og Baldur Fannar Andrésson gistiheimilið Dalshöfði Guesthouse. Mikil snyrtimennska er umhverfis gistiheimilið, heimilið og uppgert torfhús sem þar er til afþreyingar fyrir ferðamenn, allt til mikillar fyrirmyndar.
Væntanlega hefur ekki farið fram hjá mörgum að eldri borgarar í sveitarfélaginu standa sig aðdáanlega vel í flöskusöfnun eldri borgara. Því var ákveðið að veita þeim viðurkenningu fyrir frábært framlag til hringrásarhagkerfisins. Má segja að Stefán Jónsson frá Þykkvabæ fari þar fremstur í flokki og tók hann við viðurkenningunni en mun að sjálfsögðu deila henni með sínum samstarfsmönnum í flöskusöfnuninni.
Vegna smitvarna voru viðurkenningar ekki afhentar með kossum og knúsi en við óskum öllum verðlaunahöfum hjartanlega til hamingju með vel unnin störf.
Umhverfis- og náttúruverndarnefnd Skaftárhrepps