Eigendur Systrakaffis hafa keypt húsnæði Arionbanka og Kjarvals
Eins og flestir sveitungar okkur vita mun verslun Kjarvals loka í lok árs. Við höfum nú keypt húsnæðið sem hýsir verslunina. Fyrir áttum við stóran hluta hússins, þ.e það rými sem hýsir Systrakaffi og Arion banka. Við fengum boð um að kaupa húsnæði Festis (Kjarvals) og tókum við því. Við sáum einungis kosti að halda húsinu í höndum heimafólks sem hér býr, frekar en það lendi í höndum fólks sem gæti breytt húsinu í hvað sem er og lokað þar með á alla möguleika á að þarna verði áfram verslun.
Það er því okkar vilji og forgangsatriði að í húsinu verði áfram verslun. Það er hagur okkar allra, skiptir alla miklu máli og kemur öllum við. Við erum opin fyrir öllu og erum að velta ýmsum möguleikum fyrir okkur þessa dagana, hlutirnir gerðust hratt og því hefur ekki mikill tími verið til stefnu. Eitt og annað veltist um í kollinum á okkur, hvort við munum sjálf fara út í þennan rekstur eða leiga húsið út til einhvers sem vill hefja rekstur búðar, það er allt til skoðunar. Við viljum því endilega hvetja fólk sem hefði áhuga á koma af stað rekstri verslunar að hafa samband við okkur. Við áttum gott spjall við sveitarstjórn í gær og er vilji þeirra og okkar að lausn finnist á þessu máli.
Að sjálfsögðu er lokun Kjarvals mikill skellur fyrir alla, ýmsar sögusagnir fara af stað í kjölfarið og skiljanlega gætir reiði meðal fólks. Okkur þykir því miður að heyra neikvæðar raddir í garð okkar og að það sé okkar sök að Kjarval sé að fara. Sú ákvörðun um lokun búðarinnar er alfarið hjá Festi og höfðum við engin áhrif þar á. Okkur bauðst húsið til kaups og slógum til.
Enn og aftur viljum við ítreka að ef einhverjir hafa áhuga á að leigja húsið af okkur fyrir verslunarrekstur eða hafið einhverjar spurningar, þá skuluð þið ekki hika við að hafa samband. Það er betra að spyrja og fá svör, en að geta í eyðurnar.
Kveðja, Guðmundur Vignir og Auður.