Gatnagerðargjald

Auglýsing
um gatnagerðargjald í Skaftárhreppi
 
1. gr.
Almenn ákvæði. Innifalið í gatnagerðargjaldi.

Af öllum nýbyggingum, ( á Kirkjubæjarklaustri ) svo og stækkunum eldri húsa, hvort sem er á eignarlóðum eða leigulóðum í Skaftárhreppi, sbr. þó 1. mgr. 5. gr., skal greiða gatnagerðargjald til sveitarsjóðs samkvæmt gjaldskrá þessari. Um gatnagerðargjöld að öðru leyti fer eftir lögum um gatnagerðargjald nr. 17/1996 og reglugerð um gatnagerðargjald nr. 543/1996.
Innifalið í gatnagerðargjaldi er gatnagerð, svo sem undirbygging gatna, tilheyrandi lagnir, m.a. vegna götulýsingar, lagning bundins slitlags, gangstéttar, umferðareyjar og þess háttar, sem gert er ráð fyrir í skipulagi.

2. gr.
Grunnur gatnagerðargjalds.

1. Af hverjum fermetra húss greiðist ákveðinn hundraðshluti byggingarkostnaðar
pr. fermetra í húsbyggingu eins og hann er hverju sinni í vísitöluhúsi fjölbýlis skv. útreikningi Hagstofu Íslands , eins og hér greinir. Gjald pr. fermetra skal tilgreint í heilum krónum:
Einbýlishús með eða án tvíbýlisaðstöðu 5,0%
Parhús, raðhús, tvíbýlishús, keðjuhús og fjölbýlishús 4,5%
Verslanir og skrifstofuhúsnæði 3,5%
Iðnaðarhús, vörugeymslur og atvinnuhúsnæði 2,5%
Bifreiðageymslur 1,0%
Annað 2,5%
2. Fjárhæð gatnagerðargjalds breytist 1. dag, hvers mánaðar í samræmi við
breytingu á byggingarkostnaði vísitöluhússins.
3. Sveitarstjórn getur hækkað eða lækkað gjöld samkvæmt gjaldskrá þessari
vegna tiltekinna svæða eða lóða um allt að 20%.

3. gr.
Greiðsluskilmálar.

1. Lámarksgatnagerðargjald, sem ákveðið er við úthlutun byggingaréttar á lóð, skal greiða innan eins mánaðar ( sex vikna ) frá dagsetningu tilkynningar til lóðarhafa um úthlutunina og með þeim skilmálum sem sveitarsjóður ákveður. Ef ekki er greitt innan tilskilins frests fellur úthlutunin sjálfkrafa úr gildi án sérstakrar tilkynningar þar um
2. Af flatarmáli bygginga , sem bygginganefnd samþykkir og sem er umfram það flatarmál, sem lágmarksgatnagerðargjald skv. 1, mgr, var miðað við, skal greiða gatnagerðargjald samkvæmt þeirri gjaldskrá, sem gildir þegar það var samþykkt.
Viðbótargatnagerðargjald skal greitt áður en byggingarleyfi er gefið út.
3. Gatnagerðargjald af byggingum , sem samþykktar eru á eignarlóðum, skal greiða áður en byggingarleyfi er gefið út

4. gr.
Undantekningar.

1. Gatnagerðargjald skal lækkað eða fellt niður þegar svo stendur á , sem í 1.-3 tl. þessarar málsgreinar segir:
1) Af kjallararýmum íbúðarhúsa, sem myndast þegar hagkvæmara
er að grafa grunn en fylla hann upp, skal greiða 25% af venjulegu fermetragjaldi, enda sé húsrýmið gluggalaust og aðeins gengt í það innanfrá.
2) Af sameiginlegum bílageymslum fyrir þrjár eða fleiri bifreiðar, sem
byggðar eru samkvæmt skipulagsskilmálum og koma í stað bifreiðastæða, skal greiða 25% af fermetraverði þeirra húsa sem þær eiga að þjóna.
3) Af auknu flatarmáli íbúðarhúsa 15 ára og eldri, sem leiðir af
endurbótum á þeim t.d. með byggingu anddyris, yfirbyggingu svala, glerskálum o.þ.h. skal ekki greiða gatnagerðargjald, enda nemi stækkunin ekki meiru en 1/3 hluta flatarmáls íbúðarinnar og aldrei meiru en 30 m2 á hverja íbúð. Tilheyri stækkunin sameign fjölbýlishúss, skal meta hana eins og ef um stækkun vegna einnar íbúðar væri að ræða. Við ákvörðum gatnagerðargjalds skv, þessum tölulið skal meta í einu lagi þær stækkanir sem samþykktar hafa verið á sama húsi á næstu 5 árum á undan.

2. Samþykki bygginganefnd breytingar á húsnæði eða notkun húsnæðis,
sem undanþágur skv, 1, 2. eða 3. tl 1. mgr. þessarar greinar taka til , þannig að það uppfyllir ekki lengur skilyrði til lækkunar gatnagerðargjalds, skal greiða gatnagerðargjald af því húsnæði samkvæmt gildandi gjaldskrá, að teknu tilliti til þess sem áður hefurverið greitt vegna sama húsnæðis. Ef veitt er undanþága
frá greiðslu gatnagerðargjalds skv. 1., 2. eða 3. tl. 1. mgr. skal þinglýsa yfirlýsingu á viðkomandi eign um að breytt notkun húsnæðisins geti leitt til greiðslu gatnagerðargjalds.

5. gr.
Endurgreiðsla gatnagerðargjalds.

1. Um endurgreiðslu greidds gatnagerðargjalds fer eftir 9. gr. reglugerðar nr.
453/1996. Gatnagerðargjald endurgreiðist ásamt verðbótum samkvæmt vísitölu byggingarkostnaðar frá þeim degi þegar það var greitt. Gatnagerðargjald, sem greitt hefur verið í tengslum við veitingu byggingarleyfis, skal verðbætt samkvæmt framansögðu til þess dags, þegar byggingarleyfið fellur úr gildi eða er fellt úr gildi. Í öðrum tilvikum skal reikna verðbætur til þess dags. þegar gatnagerðargjaldið er endurgreitt.
2. Hafi byggingarleyfi fyrir húsi verið eða hluta húss verið bundið skilyrði um
niðurrif eða brottflutning að kröfu sveitarstjórnar skal gatnagerðargjald, sem greitt hefur verið vegna viðkomandi byggingar, endurgreitt ásamt verðbótum þegar byggingin hefur verið rifin eða fjarlægð í samræki við kvöðina. Verðbætur skulu reiknast frá greiðsludegi gatnagerðargjaldsins til þess dags, að niðurrif eða brottflutnings er krafist. Réttur til endurgreiðslu gatnagerðargjalds samkvæmt þessari málsgrein fellur niður ef sveitarstjórn hefur ekki krafist niðurrifs eða brottflutnings byggingarinnar, sem kvöðin hvílir á , innan 15 ára frá því að hið skilyrta byggingarleyfi var upphaflega veitt.

6. gr.
Heimild til að fella niður gatnagerðargjald. Sérstök tilvik.

Heimilt er að fella niður gatnagerðargjald bygginga á vegum sveitarfélagsins, fyrirtækja þess og stofnana.
Sveitarstjórn getur ákveðið gatnagerðargjald sérstaklega í þeim tilvikum er byggingar falla ekki undir ákvæði gjaldskrár þessarar.

7. gr.
Heimild til afturköllunar byggingarleyfis ef gatnagerðargjald er ekki greitt.

Nú greiðir lóðarhafi ekki gatnagerðargjald á tilskyldum tíma og er sveitarstjórn þá heimilt að afturkalla byggingarleyfið og/eða lóðarúthlutun og skal kveðið svo á í úthlutunar- eða byggingarskilmálum.

8. gr.
Um eldri samninga og gatnagerðargjöld, álögð fyrir 1. janúar 1997.

Samningar og skilmálar um gatnagerðargjöld og álögð gatnagerðargjöld fyrir 1. janúar 1997 skulu halda gildi sínu og innheimtast samkvæmt heimild í ákvæði til bráðabirgða í lögum um gatnagerðargjald nr. 17/1996, sbr. 15. gr. reglugerðar um gatnagerðargjald nr. 543/1996.

9. gr.
Gildistaka gjaldskrár.

Gjaldskrá þessi, er samin og samþykkt af sveitarstjórn Skaftárhrepp samkvæmt 6. gr. laga nr. 17/1996 og 11. gr. reglugerðar nr. 543/1996 um gatnagerðargjald, til að öðlast gildi þegar í stað.
Við álagningu gatnagerðargjalda í Skaftárhreppi samkvæmt gjaldskrá þessari skal jafnframt tekið mið af ákvæði til bráðabirgða í lögum um gatnagerðargjald nr. 17/1996.

Kirkjubæjarklaustri 30. 01. 2001

Ólafía Jakobsdóttir,
sveitarstjóri Skaftárhrepps